Enski boltinn

Rooney mun sjá eftir þessu

Nordic Photos / Getty Images
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að Wayne Rooney þurfi að hugsa vandlega um sín mál eftir að hann fór fram á að verða seldur frá félaginu.

Rooney var ekki í leikmannahópi liðsins þegar að United vann 2-1 sigur á Swansea í gær. Þetta var síðasti leikur liðsins undir stjórn Alex Ferguson á Old Trafford auk þess sem að liðið fékk Englandsmeistarabikarinn eftir leik.

„Wayne er tilfinningaríkur drengur og hefur ekki verið sjálfum sér líkur síðustu mánuðina. En ég hef séð leikmenn sem fóru frá United til stórra liða eins Real Madrid vilja ekkert fremur en að koma aftur,“ sagði Neville.

„Það er enginn dans á rósum að spila með þessu félagi í 20 ár samfleytt. Það er stundum erfitt og þetta er erfið stund fyrir hann.“

„Hann spilar með landsliðinu eftir nokkrar vikur og fer svo í sumarfrí. Vonandi nær hann áttum á þeim tíma og snýr aftur sem leikmaður Manchester United.“

Rooney hefur verið orðaður við mörg félög, til að mynda Chelsea. David Luiz, varnarmaður liðsins, myndi fagna komu Rooney.

„Allir vita hversu góður hann er. Ef hann vill koma, af hverju ekki? Ég væri ánægður með það,“ sagði Luiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×