Enski boltinn

Rio hættur í enska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rio Ferdinand hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa aftur kost á sér í enska landsliðið en hann spilaði alls 81 landsleik á ferlinum.

Ferdinand tilkynnti Roy Hodgson, þjálfara enska landsliðsins, ákvörðun sína en Rio ætlar nú að einbeita sér alfarið að því að spila með félagsliði sínu, Manchester United.

„Ég er 34 ára gamall og finnst tímabært að stíga til hliðar og hleypa yngri leikmönnum að. Landsliðið lítur vel út og það eru margir efnilegir leikmenn að stíga fram á sjónarsviðið,“ sagði Ferdinand í yfirlýsingu á heimasíðu enska sambandsins.

„Það hefur ávallt verið mér mikill heiður að spila fyrir enska landsliðið, allt frá U-17 ára liðinu upp í A-landsliðið.“

Hodgson skildi Ferdinand eftir heima þegar hann valdi EM-hóp sinn í fyrra. Það vakti svo mikla athygli þegar hann greindi farþegum í neðanjarðarlest í Lundúnum frá því að Ferdinand ætti sér ekki framtíð í landsliðinu. Hann baðst síðar afsökunar á þeim ummælum.

Hodgson valdi svo Ferdinand loks í landsliðið fyrr á þessu ári en sá síðarnefndi þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Ferdinand spilaði síðast með landsliðinu árið 2011.

Ferdinand skoraði sigurmark United gegn Swansea um liðna helgi en það var síðasti leikur liðsins á Old Trafford undir stjórn Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×