Enski boltinn

Arsenal og Chelsea þurfa mögulega að spila aukaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Svo gæti vel farið að Arsenal og Chelsea verði hnífjöfn í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir lokaumferðina um næstu helgi.

Aðeins eitt stig og eitt mark skilur að liðin í dag. Ef Arsenal vinnur 2-1 sigur á Newcastle um helgina og Chelsea gerir á sama tíma markalaust jafntefli við Everton verða liðin til að mynda bæði jöfn að stigum (73) og markatölu (73-38).

Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest samkvæmt fjölmiðlum ytra að innbyrðisviðureignir liðanna verði ekki notaðar til að ráða niðurröðun liðanna í stigatöflunni komi til þess að liðin verði hnífjöfn.

Það þyrfti því að spila aukaleik á hlutlausum velli, til dæmis Wembley, um þriðja sætið í deildinni. Þriðja sætið veitið beinan þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en liðið í fjórða sæti þarf að fara í forkeppnina.

Það gæti reynst erfitt að finna tíma fyrir aukaleikinn þar sem áætlað er að Chelsea færi í æfingaferð til Bandaríkjanna að tímabilinu loknu. Það verða svo landsleikir í byrjun júnímánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×