Enski boltinn

Gylfi stelur fyrirsögnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson átti frábæra innkomu í lið Tottenham í kvöld þegar liðið náði annan leikinn í röð að sækja stig eftir að íslenski landsliðsmaðurinn kom inn á sem varamaður. Tottenham gerði þá 2-2 jafntefli á útivelli á móti Chelsea.

Gylfi kom inn á sem varamaður í stöðunni 0-0 þegar Tottenham vann 1-0 sigur á Southampton um síðustu helgi. Gylfi átti ekki þátt í sigurmarkinu sem Gareth Bale skoraði en í kvöld var það okkar maður sem tryggði Tottenham dýrmætt stig í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.

Gylfi kom inn á 63. mínútu og skoraði jöfnunarmarkið á 80. mínútu með laglegu skoti í fjærhornið en það má sjá markið með því að smella hér fyrir ofan.

Gylfi stal líka fyrirsögnum ensku miðlanna eftir leikinn og The Sun sló upp fyrirsögninni "Gylti pleasure" eftir leikinn í kvöld þar sem fyrsti þrír stafirnir fengu sér lit enda einnig fyrstu þrír stafirnir í nafni Gylfa. Það er hægt að sjá umfjöllun The Sun um leikinn með því að smella hér.

Gylfi hefur skorað 7 mörk í 46 leikjum með Tottenham í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili á White Hart Lane þar af fjögur mörk í síðustu tíu deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×