Menning

Stelpurnar í Girls mæta í kvöld

Önnur þáttaröð af frumlegu gamanþáttaröðinni Girls hefst á Stöð 2 í kvöld. Þátturinn var valinn besta gamanþáttaröðin á Golden Globe-verðlaunaafhendingunni fyrir skemmstu. Höfundur þáttanna og aðalleikkona, Lena Dunham, var einnig valinn besta leikkonan á hátíðinni. Þættirnir verða sýndir á Stöð 2 skömmu eftir frumsýningu í Bandaríkjunum en þar hófst þáttaröðin í sýningu nú í janúar. Fyrir tæpum tveimur vikum tilkynnti HBO-sjónvarpsstöðin að vinsældirnar væru slíkar að ákveðið hefði verið að framleiða einnig þriðju þáttaröð fyrir næsta vetur. Girls-þættirnir fjalla um vinkvennahóp sem elur manninn í draumaborginni New York og áhorfendur fá að fylgjast með aðstæðum þeirra, samskiptum við hitt kynið, baráttunni við starfsframann og fleira. Skvísurnar eru allar á þrítugsaldri og fyrir hópnum fer Hannah Horvarth sem leikin er af Lenu Dunham. Dunham er jafnframt hugmyndasmiðurinn, handritshöfundur þeirra og framleiðandi. Hún vann einnig til verðlauna fyrir leikstjórn á "pilot"-þættinum fyrir þáttaröðina. "Gossip Girl fjölluðu um unglinga í betri hverfum Mannhattan. Sex and the City fjölluðu um konur sem voru komnar með starfsframann á hreint og vildu fara að leggja drög að fjölskyldumyndun. Það er einn hópur kvenna á milli þessarra aldursskeiða sem á alveg eftir að fjalla um,“ sagði Dunham í viðtali um hugmyndina að baki Girls. Girls er á dagskrá Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld klukkan 22:25.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×