Innlent

Óvissa með framboð þjóðernissinna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Einar Gunnar steig til hliðar sem opinber talsmaður flokksins í október.
Einar Gunnar steig til hliðar sem opinber talsmaður flokksins í október.
„Það er algjörlega óvíst með framboð til alþingiskosninga þó listabókstaf sé úthlutað," segir Einar Gunnar Birgisson, meðlimur Bjartsýnisflokksins, framboðs hófsamra þjóðernissinna.

Alls eru tólf framboð til kosninganna komin með listabókstaf eða í ferli, og samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins í dag er eitt þeirra E-listi Bjartsýnisflokksins, sem vilji berjast gegn fjölgun blökkumanna á Íslandi, sem hann telji hægfara eyðileggingu á þjóðinni.

„Þessi frétt á RÚV í dag var eitthvað skrýtin. Það sem þeir segja þar kemur ekki úr neinni stefnuskrá og bara eitthvað sem þeir hafa búið til," segir Einar Gunnar, en hann hefur stigið til hliðar sem talsmaður flokksins.

Á stefnuskránni má finna ýmislegt sem snýr að málefnum innflytjenda, en Bjartsýnisflokkurinn vill eins stranga innflytjendalöggjöf og hægt er, og helst ekki taka við neinum flóttamönnum.

Óvissan um framboðið er þó töluverð og segir Einar flokkinn hafa verið í biðstöðu síðan í október. „Það hefur ekki tekist sem skyldi að finna talsmenn meðal félaga, og það hafa heldur engir stigið fram til að leiða málið áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×