Erlent

26 látnir í óeirðum vegna dauðadóms

Stuðningsmenn Al  Ahly fagna dauðadómi yfir 21 stuðningsmanni liðs Al Masry í morgun.
Stuðningsmenn Al Ahly fagna dauðadómi yfir 21 stuðningsmanni liðs Al Masry í morgun. Nordicphotos/Getty
Að minnsta kosti 26 eru látnir í óeirðum sem brutust út í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í morgun. Óeirðirnar brutust út eftir að 21 var dæmdur til dauða fyrir sinn þátt í óeirðum sem áttu sér stað að loknum knattspyrnuleik í borginni Port Said í mars í fyrra.

Það brutust út fagnaðarlæti í réttarsalnum þegar dómurinn var kveðinn upp í morgun. Sjötíu og fjórir létu lífið í óeirðunum sem brutust út á knattspyrnuleikvangi í borginni Port Said í febrúar í fyrra eftir leik liðanna Al-Masry og Al-Ahly.

Flestir sem létust voru stuðningsmenn Al-Ahly en heimavöllur liðsins er í Kaíró. Íbúar þar í borg fögnuðu einnig niðurstöðunni en stuðningsmenn liðsins voru búnir að hóta hefndum ef ekki myndi falla þungur dómur í málinu.

Til átaka kom hins vegar milli lögreglu og stuðningsmanna Al-masry í Port Said í dag. Að minnsta kosti tuttugu og sex hafa látið lífið í átökunum, þar á meðal tveir lögreglumenn sem voru skotnir til bana fyrir utan fangelsið þar sem mennirnir eru vistaðir.

Alls hafa fimmtíu og tveir til viðbótar  verið ákærðir útaf óeirðunum í fyrra en dómur í þeirra máli verður kveðinn upp í byrjun mars.

Að minnsta kosti níu létust í gær í átökum við lögreglu þegar uppreisnarmenn fögnuðu að ár var liðið frá Hosni Mubarak var steypt af stóli. Óeirðunum hafði linnt en blossuðu upp að nýju í kjölfar dauðadóms yfir 21 knattspyrnuáhorfanda í morgun.


Tengdar fréttir

21 knattspyrnuáhorfandi dæmdur til dauða

Dómstólar kváðu í gær upp dauðadóm yfir 21 knattspyrnuáhorfanda í Port Said í Egyptalandi. Óeirðir brutust út að loknum knattspyrnuleik í borginni í febrúar á síðasta ári þar sem 74 létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×