Fótbolti

Eiður Smári: Þetta er frábært afrek

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiður smári Var nálægt því að skora á móti Noregi í gær.
Eiður smári Var nálægt því að skora á móti Noregi í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er kannski enn skemmtilegra eftir að hafa verið í landsliðinu allan þennan tíma, sautján til átján ár. Auðvitað er þetta mikið afrek og við höfum stigið stórt skref í sögu íslenskrar knattspyrnu.“

Þannig dró Eiður Smári Guðjohnsen saman afraksturinn í Ósló í gærkvöldi og undankeppni HM sem nú er lokið hjá öllum Evrópuþjóðum nema átta. Eiður fagnaði gríðarlega þegar úrslitin úr Sviss voru ljós og sætið í umspili tryggt.

„Það var komin spenna í mannskapinn á hliðarlínunni undir lokin. Þetta var mikill léttir og sama hvað gerist í framhaldinu getum við verið stoltir af því sem við höfum afrekað,“ sagði Eiður Smári. Framherjinn hefur unnið flesta af stærstu titlum sem í boði eru á Englandi, Spáni auk Meistaradeildar Evrópu. Hann líkir afreki Íslands við það að hljóta titil.

„Ég held við getum alveg verið raunsæir og sagt að við verðum aldrei heimsmeistarar. En fyrir okkur sem knattspyrnuþjóð, að hafa komið inn í þennan riðil í sjötta styrkleikaflokki en hafnað í öðru sæti og vera komnir í umspil, það er frábært afrek. Það sýnir gæðin í íslenskri knattspyrnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×