Enski boltinn

Mancini: Þetta gæti verið búið á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur smá áhyggjur af því að baráttan um enska meistaratitilinn gæti verið á enda strax um næstu helgi ef úrslitin verði áfram liði hans óhagstæð.

Manchester United spilar tvo leiki fram að næsta leik Manchester City og á möguleika á því að ná átta stiga forskoti áður en City mætir Arsenal um næstu helgi. United mætir Blackburn Rovers í kvöld og Queens Park Rangers snemma á sunnudaginn.

Manchester City er nú tveimur stigum á eftir United eftir að liðið slapp með 3-3 jafntefli á móti Sunderland á heimavelli á laugardaginn.

„Ef við lendum átta stigum á eftir þeim þá er þetta búið," sagði Roberto Mancini sem býst þó við því að United nái aðeins jafntefli á útivelli á móti Blackburn í kvöld. United er búið að vinna sex deildarleiki í röð.

„Ég trúi því samt að við verðum meistarar og það er mikilvægt að leikmennirnir mínir einbeiti sér að því að vinna titilinn. Við erum samt með 71 stig sem er 13 stigum meira en Arsenal og 18 stigum meira en Chelsea. Við höfum því bætt okkur frá síðasta tímabili en munum berjast um titilinn fram að derby-leiknum því það er sá leikur sem mun ráða þessu," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×