Fótbolti

Verður Drogba og Anelka fórnað í valdabaráttu innan Shenhua?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba og Nicolas Anelka.
Didier Drogba og Nicolas Anelka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Didier Drogba og Nicolas Anelka eru frekar nýkomnir til kínverska félagsins Shanghai Shenhua en svo gæti farið að þeir verði báðir seldir á næstunni vegna valdabaráttu innan félagsins.

Stjórnarformaðurinn Zhu Jun er ósáttur að hafa ekki meiri völd innan félagsins. Zhu Jun er búinn að dæla meira en 94 milljónum dollara inn í félagið undanfarið fimm og hálft ár en á engu að síður aðeins 28,5 prósent hluta í klúbbnum.

Zhu Jun á félagið ásamt fimm ríkisreknum fyrirtækjum en segist ekki ætla að eyða meiri peningi í félagið nema ef að hann fái meiri völd. Samkvæmt nýju samkomulagi þá fengi hann 70 prósent eignarhlut í félaginu ef hann sé tilbúinn að leggja til 23,6 milljónir dollara á næstu tveimur árum.

Takist ekki að sannfæra Zhu Jun um að halda áfram að borga háar upphæðir inn í rekstur félagsins þá gæti Shanghai Shenhua neyðst til að selja þá Didier Drogba og Nicolas Anelka.

Peningarnir frá Zhu Jun fara aðallega í að borga laun félagsins en bæði Drogba og Anelka fá meira en 300 þúsund dollara í vikulaun eða 36,5 milljónir íslenskra króna.

Shanghai Shenhua hefur ekki grætt mikið á komu Didier Drogba og Nicolas Anelka því liðið er bara í 10. sæti í þessari sextán liða deild. Guangzhou Evergrande er á toppnum með 20 stigum meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×