Fótbolti

Rossi í rusli eftir annað krossbandsslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giuseppe Rossi fagnar marki í leik með Villarreal.
Giuseppe Rossi fagnar marki í leik með Villarreal. Nordic Photos / AFP
Einn lækna ítalska landsliðsins í knattspyrnu segir að sóknarmaðurinn Giuseppe Rossi sé miður sín eftir að hann sleit krossband í hné í annað skipti á skömmum tíma í gær.

Rossi var að jafna sig eftir krossbandsslit þegar meiðslin tóku sig upp á æfingu með liði hans, Villarreal, í gær. Það þýðir að hann verður frá næstu sex mánuðina og missir af EM í Úkraínu og Póllandi.

„Ég var að tala við Beppe (Rossi) í símanum og hann er algjörlega miður sín. Hann átti fyllilega von á því að geta byrjað að spila á ný áður en tímabilið klárast á Spáni og spila svo með landsliðinu á EM í sumar," sagði læknirinn, Enrica Castelacci.

„Þetta eru mikil vonbrigði fyrir hann. Þetta er góður drengur og áfallið er mikið fyrir okkur öll. Ég ræddi við hann fyrir aðeins tveimur dögum síðan og þá leið honum vel."

„En nú þarf hann að fara aftur í aðgerð og bíða í sex mánuði þar til hann getur spilað fótbolta á nýjan leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×