Enski boltinn

Paul Ince vill verða stjóri Eggerts Gunnþórs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Ince.
Paul Ince. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paul Ince, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, er tilbúinn að setjast í stjórastólinn hjá Úlfunum strax í dag svo að hann geti hjálpað sínum gömlu félögum að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Terry Connor tók við Wolves-liðinu þegar Mick McCarthy var rekinn í febrúar en Wolves hefur aðeins náð eitt stig í sex leikjum undir hans stjórn. Wolves er nú í botnsætinu sex stigum á eftir næsta liði og staðan er því afar slæm.

„Með fullri virðingu fyrir TC (Connor) þá er ég með meiri stjórareynslu en hann og ég hef bjargað liðum frá falli. Ég hef komið liðum upp og ég hef stýrt liðum í ensku úrvalsdeildinni," sagði Paul Ince við Express and Star.

„Starfið snýst um að kveikja neista hjá bæði leikmönnum og stuðningsmönnum og fá alla til að trúa á verkefnið. Ég tel að ég sé rétti maðurinn í það og ég ætti að sitja í stjórastólnum," sagði hinn 44 ára gamli Paul Ince sem spilaði í fjögur ár með Úlfunum undir lok síns ferils.

„Ef einhver kæmi til mín og segði: Taktu að þér sjö síðustu leikina þá myndi ég gera það. Ég myndi gera það af því að þetta er Wolves og þeir eru bara að stefna í eina átt eins og staðan er núna," sagði Ince.

„Wolves er stórt félag. Þegar ég kom þangað þá hafði liðið ekki spilað í efstu deild í 19 ára en við fórum strax upp. Ég spilaði þar í fjögur ár og Wolves er stór hluti af mínu lífi," sagði Ince sem síðast var stjóri hjá Notts County en hætti eftir að liðið tapaði níu leikjum í röð.

Íslenski landsliðsmiðjumaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson kom til Wolves um áramótin en hefur aðeins spilað þrjá leiki með liðinu. Wolves tapaði öllum þeim þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×