Enski boltinn

Van Persie býst við markaleik á móti Man City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie léttur á æfingu.
Robin van Persie léttur á æfingu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie, framherji Arsenal, býst við miklum markaleik á sunnudaginn þegar Arsenal tekur á móti Manchester City á Emirates-leikvanginum. Van Persie segir að bæði lið verði að fá þrjú stig og hafi bæði hæfileikamenn til að bjóða upp á flottan leik.

Robin van Persie er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en hann hefur skorað 54 mörk frá ársbyrjun 2011 eða síðan að hann snéri til baka í Arsenal-liðið eftir langvinn meiðsli.

„Mér finnst City-menn vera þannig lið þessa stundina að þeir gætu annað hvort skorað ekkert mark eða sett þrjú eða fimm. Það er aldrei að vita með þá," sagði Robin van Persie við heimasíðu Arsenal.

„Það gerir þennan leik áhugaverðan því við getum líka skorað fimm mörk enda höfum við sýnt það á stórum liðum á þessu tímabili. Þeir hafa gert það einnig þannig að hver veit nema að þetta fari bara 5-5," sagði Van Persie.

„Ég er sannfærður um að við getum náð góðum úrslitum úr þessum leik og við verðum að ná í þrjú stig. Jafntefli eru ekki ekki góð úrslit fyrir okkur frekar en þá. Þetta ætti að verða frábær leikur," sagði Van Persie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×