Innlent

Smygluðu mörgum kílóum af amfetamíni - áfram í gæsluvarðhaldi

Fjórir karlar hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 14. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna en mennirnir sem eru allir erlendir ríkisborgarar, eru grunaðir um aðild að innflutningi á umtalsverðu magni af fíkniefnum, eða 8,5 kg af amfetamíni. Í tilkynningu frá lögreglu segir að tveir mannanna hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Mennirnir voru allir handteknir um miðjan mánuðinn, einn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, tveir þegar þeir voru á leið til höfuðborgarinnar og sá fjórði, sem er búsettur hérlendis, við heimili sitt. „Þrír mannanna höfðu komið hingað með flugi frá Póllandi sama dag og þeir voru handteknir. Það voru tollverðir á Keflavíkurflugvelli sem komust á snoðir um málið en þeir sýndu mikla árverkni og góð vinnubrögð þegar málið uppgötvaðist. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins en það er unnið í samvinnu við lögregluna á Suðurnesjum og tollyfirvöld," segir lögreglan.


Tengdar fréttir

Götuvirði amfetamínsíns 250 milljónir króna

Hluti af þeim tæpu tíu kílóum af amfetamíni sem þrír Pólverjar reyndu að smygla hingað til lands um helgina var komið fyrir í sjampóbrúsum. Á föstudag var annar aðili tekinn með kókaín sem falið var í sjampóbrúsa en fleiri aðilar eru taldir tengjast því máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×