Lífið

Fleiri hundruð umsækjendur í MasterChef

Þór Freysson framleiðandi velur úr hópi umsækjenda í sjónvarpsþáttinn MasterChef. Tökur á þættinum hefjast í næsta mánuði.
Þór Freysson framleiðandi velur úr hópi umsækjenda í sjónvarpsþáttinn MasterChef. Tökur á þættinum hefjast í næsta mánuði. Fréttablaðið/dANÍEL
Skráning stendur enn yfir í íslenska útgáfu sjónvarpsþáttarins MasterChef og að sögn Þórs Freyssonar, framleiðanda hjá Sagafilm, hafa nokkur hundruð skráningar þegar borist. Lokað verður fyrir skráningar síðar í ágúst en tökur hefjast í byrjun næsta mánaðar.

"Við veljum ákveðinn fjölda úr hópnum sem fer í "áheyrnarprufur" og kokkar fyrir dómnefndina. Við reiknum með að um 50 til 70 manns verði fyrir valinu. Við viljum auðvitað taka inn sem flesta."

Starfsfólk Sagafilm hefur þegar hafist handa við að velja úr hópi umsækjenda og að sögn Þórs er farið eftir hæfni umsækjenda í matreiðslu sem og persónulegum upplýsingum. "Við munum svo kalla þá umsækjendur í viðtal sem við höfum áhuga á að taka inn og ganga úr skugga um að það sé spennandi á skjánum. Við erum orðin nokkuð sjóuð í þessu eftir að hafa valið keppendur í fjórar þáttaraðir af Idolinu og þáttaröð af X-Factor og Bandinu hans Bubba."

Þeir keppendur sem komast í gegnum áheyrnarprufurnar fara áfram í svokallaðar vinnubúðir þar sem þeir þurfa að leysa ákveðin verkefni af hendi. Átta keppendur komast áfram í MasterChef-eldhúsið og þar hefst æsispennandi útsláttarkeppni þar til einn stendur uppi sem sigurvegari. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.