Enski boltinn

Shearer: Enska sambandið verður að ráða þjálfara strax í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer.
Alan Shearer. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alan Shearer, fyrrum landsliðsfyrirliði Englendinga, segir það algjörlega nauðsynlegt að ensk sambandið ráði landsliðsþjálfar strax í dag. Enska landsliðið hefur verið þjálfaralaust síðan að Ítalinn Fabio Capello gekk út 9. febrúar síðastliðinn.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur verið sterklega orðaður við starfið allan tímann en Stuart Pearce, þjálfari 21 árs landsliðsins, stýrði liðinu í vináttulandsleik á móti Hollandi á dögunum.

„Þeir þurfa þjálfara sem fyrst og í rauninni strax í dag. Enska sambandið á að hugsa um enska landsliðið frekar en fótboltafélögin," sagði Alan Shearer við BBC. Shearer skoraði 30 mörk í 63 landsleikjum en hann var fyrirliði í 34 þeirra.

„Þó að liðið hans Harry hafi lent í nokkrum slæmum úrslitum þá gerir það hann ekki að slæmum stjóra. Ég er hundrað prósent viss um að það sé réttast að ráða Harry og ég er nokkuð viss um að allir séu sammála mér," sagði Alan Shearer.

„Enska sambandið er í slæmri stöðu því það vill ekki raska málum hjá einhverjum en það er bara kominn tími á það að þeir þurfi að gera það," sagði Shearer.

Það styttist óðum í Evrópumótið í sumar og áhyggjur Alan Shearer þurfa ekki að koma neinum á óvart enda er ljóst að nýr þjálfari þarf tíma til að koma sínum áherslum til skila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×