Fótbolti

Eiður Smári fer í myndatöku á miðvikudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen er á leiðinni í myndatöku á miðvikudaginn þar sem kemur í ljós hversu vel beinin í fæti hans hafa gróið en Eiður Smári tvíbrotnaði á fæti í leik með AEK Aþenu á móti Olympiacos þann 15. október. Þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.

„Það var sagt við okkur í byrjun að þetta væru líklega sex mánuðir en það hefur komið fyrir að menn séu fjóra mánuði að koma til baka. Nú eru liðnir um fjórir mánuðir og við vonum að það komi í ljós að beinið sé búið að gróa," segir Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá gríska félaginu, í viðtali við vefsíðuna fótbolti.net.

„Ef það er þá held ég að það þurfi svo tvær til þrjár vikur í að beinið verði nægilega sterkt svo hann geti farið að æfa á fullu. Þá myndi ég ætla að hann þurfi fjórar til fimm vikur til að koma sér í stand. Þá erum við komnir með þessa sex mánuði sem stefnir í," sagði Arnar ennfremur í viðtalinu en það má finna það í heild sinni með því að smella hér.

Eiður Smári náði aðeins að spila fimm deildarleiki með AEK áður en hann meiddist en hann kom til liðsins í haust. AEK er nú í fjórða sæti deildarinnar eftir 2-0 tap á móti Olympiacos í seinni leik liðanna um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×