Innlent

Leitað til mín sem sáttasemjara

Vinstrimaður Guðbjartur segist vera vinstrimaður, annars væri hann ekki í Samfylkingunni. Hann segir flokkinn eiga litla samleið með Sjálfstæðisflokknum eins og sá flokkur er í dag.fréttablaðið/pjetur
Vinstrimaður Guðbjartur segist vera vinstrimaður, annars væri hann ekki í Samfylkingunni. Hann segir flokkinn eiga litla samleið með Sjálfstæðisflokknum eins og sá flokkur er í dag.fréttablaðið/pjetur
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafði ekki fyrr hlotið glæsilega kosningu í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi en hann tilkynnti um framboð sitt til formennsku í flokknum. Ákvörðunin kom svo sem ekki á óvart því nafn hans hafði lengi verið í umræðunni um formannsslaginn.

Hann segist löngu hafa verið farinn að íhuga formennskuna en hafa ákveðið að bíða niðurstöðu flokksvalsins, enda skipti máli að hann hefði góðan stuðning.

„Ég ákvað að slá til þegar ég sá hver niðurstaðan varð úr flokksvalinu, sem tókst mjög vel. Við fengum mjög góða þátttöku miðað við flokksval yfirleitt. Þó að hún væri innan við helmingur er það meira en víðast hvar annars staðar. Kosningin var hins vegar mjög afdráttarlaus og ég hlaut 77 prósenta stuðning í efsta sætið. Síðan kemur í ljós að um 96 prósent kjósenda setja mig á blað, jafnvel þó að þeir velji annan í fyrsta sætið."

Reynir að leita að lausnum

Guðbjartur segir ákvörðun sína byggjast á tvennu. Í fyrsta lagi hafi hann brennandi áhuga á stjórnmálum og hafi verið í þeim í drjúgan tíma.

„Hins vegar voru gríðarlega margir sem leituðu til mín undanfarna mánuði og skoruðu á mig að gefa kost á mér. Þar hafa menn helst talið til að þeir vildu fá mann sem gæti hlustað, væri sáttasemjari og gæti eflt traust í samfélaginu. Ég hef staðið fyrir það að leita að lausnum, en ekki að vera í því að búa til ágreining. Það var eiginlega það sem réði því að ég íhugaði þetta mjög. Niðurstaða flokksvalsins varð síðan til þess að ég tók ákvörðun um að gefa kost á mér og fer núna í það af fullum krafti."

Auk Guðbjarts hefur Árni Páll Árnason lýst yfir framboði til formanns, en það gerði hann fyrir nokkrum mánuðum. Framboðsfrestur er hins vegar ekki runninn út og óvíst hvenær hann gerir það. Guðbjartur vonast til þess að þeir Árni Páll fái tækifæri til að vera á sameiginlegum fundum í janúar. Þeir félagar hafa ákveðið saman að óska eftir allsherjarkosningu meðal allra félaga í Samfylkingunni.

„Nú er maður að tala við það fólk sem hvatti mann í framboð og hvetja það til að koma fram og styðja mig og vinna með mér. Þetta er nú ekki alveg besti tíminn í þetta, í jólamánuðinum verandi með þingið á fullu og mörg mál að vinna í. Sjáum hvað tíminn dugar."

Ertu bjartsýnn?

„Já, ég væri ekki að fara í þetta nema ég teldi mig eiga góða möguleika og fer í þetta til að verða næsti formaður. Svo verður bara að koma í ljós hvort það er rétt hjá mér eða ekki. Ég fer í þetta verkefni í ótilgreindan tíma. Þó maður viti aldrei hvað gerist á hverjum tíma þá á ég mörg ár eftir í pólitíkinni, fái ég stuðning til þess."

En hverjar verða áherslur Guðbjarts, nái hann kjöri sem formaður?

„Í fyrsta lagi held ég að það sé gríðarlega mikilvægt, þegar við horfum til baka til tímans frá stofnun Samfylkingarinnar, að flokkurinn hraktist aðeins af leið með þeim tískusveiflum sem voru fyrir hrun. Samfélagið allt var auðvitað á vitlausri leið á tímabili. Það sem mestu máli skiptir núna er að skerpa grunngildin á bak við þá stefnu sem við erum að berjast fyrir; það er jöfnuð og réttlæti.

Við sáum það fyrir hrun að misskipting hafði aukist gríðarlega, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. Við verðum að endurreisa samfélagið á öðrum gildum og erum þegar byrjuð á því. Nú þegar við höfum farið í gegnum erfiðleikana finnst mér að við eigum að fá að taka uppskeruna í þeim anda; að samfélagið verði réttlátara, það verði meiri jöfnuður og enginn útundan í samfélaginu."

Guðbjartur segir að margt hafi áorkast en betur verði að gera. Um leið og hægt sé að bæta í fjárveitingar, verði að leggja áherslu á það mikilvægasta, góða menntun og öflugt heilbrigðiskerfi."

„Það er líka hægt að orða það þannig að við viljum fá raunverulega norræna velferð. Þá verðum við líka að horfa til allra þátta. Þegar rætt er um norræna velferð þá á það við um frjálst hagkerfi, en einnig að ríkið taki gjöld og deili þeim út aftur. Við tökum tekjur til að geta jafnað í gegnum skattkerfið. Við erum þegar byrjuð að bæta í m.a. með hækkuðum barnabótum, hækkun greiðslna í fæðingarorlofi, hækkun endurgreiðslna vegna tannlækninga barna, hækkun húsaleigubóta svo nokkuð sé nefnt.

Við vitum að það sem hefur einkennt norræn velferðarkerfi er að það er ríkið sem ber ábyrgð á ákveðnum málaflokkum og sér t.d. um bæði mennta- og heilbrigðismál. Mér finnst þessi grunngildi jafnaðarstefnunnar skipta mestu máli. Auðvitað verða traust velferðarkerfi og öflugt atvinnulíf að haldast í hendur og skapa okkur tekjur. Atvinnuleysi er versti óvinur velferðarinnar."

Ég er jafnaðarmaður

Guðbjartur segir að ekki megi gleyma því að huga að fjármálum, halda verði áfram á þeirri braut að halda kostnaði niðri og fara vel með peninga. Vinna þurfi að því, nú í kosningabaráttunni, að fara í gegnum skattkerfið, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, þannig að hægt sé að búa til framtíð með nokkuð stöðugu umhverfi.

„Ég held að kosningaáherslur flokksins verði einmitt nákvæmlega þessi grunngildi. Við berjumst fyrir því að endurreisa samfélagið í þessum anda. Gefa til baka í mennta- og heilbrigðiskerfið."

Þetta hljóma eins og klassískar vinstriáherslur.

„Kannski er það ástæðan fyrir því að svo margir biðja mig um að leiða vinnuna að ég hef aldrei litið á mig á einhverjum kvarða í þessa veru. Ég er jafnaðarmaður, annars væri ég ekki í Samfylkingunni, og þessi grunngildi eru auðvitað vinstriáherslur. Samtímis er ég auðvitað atvinnulífsmaður og geri mér alveg grein fyrir því að við rekum ekki öflugt samfélag nema að það haldist í hendur velferð og vinna. Atvinnulífið verður að búa við samkeppnishæft umhverfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×