Fótbolti

Möguleiki á fullum bata hjá Kolbeini

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ef allt gengur að óskum mun Kolbeinn Sigþórsson geta spilað á ný í janúar á næsta ári.
Ef allt gengur að óskum mun Kolbeinn Sigþórsson geta spilað á ný í janúar á næsta ári. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji Ajax og íslenska landsliðsins, fékk í gær þær fregnir að hann þyrfti að fara í aðgerð og yrði af þeim sökum frá næstu fjóra mánuðina. Kolbeinn hefur verið að glíma við meiðsli í öxl og verður aðgerðin framkvæmd í dag.

„Þetta var ákveðið eftir samráð við sérfræðinga sem ég hef hitt. Þetta er skásti kosturinn í stöðunni," sagði Kolbeinn í samtali við Fréttablaðið í gær. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hann fer í aðgerð vegna þessara axlarmeiðsla.

„Hin heppnaðist ekki nógu vel en það jákvæða er að nú á ég möguleika á að ná fullum bata. Til þess þarf aðgerðin og endurhæfingin að ganga vel en læknarnir eru bjartsýnir á að það takist. Ef það fer allt vel á ég möguleika á að spila á ný með 100 prósenta öxl. Ég hlakka mikið til þess," segir Kolbeinn.

Fimm ára gamalt vandamál
Mynd/Nordic Photos/Getty
Hann hefur átt í vandræðum með öxlina síðan hann varð fyrir óhappi fyrir um fimm árum síðan. „Þá datt ég um tvo metra og lenti á steini. Ég fór úr lið og brotnaði aðeins úr beininu. Eftir það hefur öxlin aldrei verið fyllilega góð," segir Kolbeinn en aðspurður segist hann ekki vilja greina nánar frá aðstæðum þess þegar óhappið varð.

„Það var einfaldlega algert óhapp og alger óþarfi að líta til baka á það," segir hann. Um tveimur árum síðar fór öxlin að vera til sífellt meiri vandræða.

„Ég fór þá úr axlarlið og það gerðist í nokkur skipti í röð. Þá var ákveðið að fara í aðgerð en þrátt fyrir hana varð öxlin aldrei eins og ég vildi hafa hana. Síðan þá hef ég verið að hlífa mér á æfingum og í leikjum," segir hann.

Kolbeinn var einnig lengi frá á síðasta tímabili eftir að hafa farið í aðgerð vegna ökklameiðsla. Þá kannaði hann möguleikann á því að nýta tækifærið og láta laga öxlina um leið.

„Það reyndist ekki hægt vegna þess að ég mátti ekki stíga í fótinn fyrstu sex vikurnar og þurfti því að vera á hækjum. Ég reyndi því að styrkja öxlina eins vel og ég gat en komst svo ekki lengra en þetta."

Ljóst er að Kolbeinn mun missa af mörgum spennandi leikjum sem eru fram undan, bæði með félagsliði hans og íslenska landsliðinu. Kolbeinn spilar með Ajax í Hollandi en liðið er í gríðarsterkum riðli í Meistaradeildinni með deildarmeisturum þriggja stórvelda í evrópskri knattspyrnu – Manchester City, Real Madrid og Dortmund.

„Ef það er hægt að tala um versta mögulega tímann til að meiðast þá er það þessi. Tímabilið er nýhafið og allir þessir leikir fram undan. Það er afar súrt að þurfa að missa af þessu," segir hann.

Kolbeinn er einnig lykilmaður íslenska landsliðinu og mun hann missa af leikjum þess gegn Albaníu og Sviss í næsta mánuði. Hann missti einnig af leikjum þess gegn Noregi og Kýpur.

Áður komið mér í gegnum meiðsli
Mynd/Nordic Photos/Getty
Þrátt fyrir að Kolbeinn hafi mátt þola ýmislegt á stuttum ferli stefnir þessi 22ja ára kappi að því að koma tvíefldur til baka.

„Ég hef þurft að koma mér í gegnum erfið meiðsli áður og staðist þær raunir. Ég hef aldrei leitt hugann að því að ferillinn kynni að vera í hættu eða neitt slíkt. Ég verð bara að líta á jákvæðu hliðarnar og byggja mig upp ný, hægt og rólega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×