„Næstu fimmtíu eða hundrað árin verða mjög frábrugðin því sem við höfum kynnst undanfarin 50 ár,“ segir S. Jeffress Williams, vísindamaður við jarðvísindastofnun Bandaríkjanna í Massachusetts.
Hann segir yfirborð sjávar hækka hratt og ofsaveður á borð við fellibylinn Sandy verða æ tíðari.
Íbúar í New York og New Jersey eru rétt að byrja að takast á við afleiðingarnar af Sandy, sem reið þar yfir seint á þriðjudagskvöld.
Hundruð þúsunda manna á Manhattan í New York búa enn við rafmagnsleysi og enn sitja þúsundir íbúa fastar í húsum sínum í borginni Hoboken í New Jersey, handan við Hudson-fljótið, þar sem flóðavatnið er ekki enn gengið niður. Stjórnvöld í New York hafa áhyggjur af eldri borgurum og fátæku fólki, sem býr á efri hæðum háhýsa neðst á Manhattan, þar sem allt er enn rafmagnslaust og svartamyrkur þegar skyggja fer.
Lestarsamgöngur eru að hluta komnar í gang aftur í New York, en langar biðraðir fólks mynduðust við strætisvagnastöðvar auk þess sem langar bílaraðir mynduðust við bensínstöðvar. Tala látinna í Bandaríkjunum var komin yfir 70 en fellibylurinn hafði áður kostað 69 manns lífið á eyjum Karíbahafsins.
Lestarkerfið í New York mjakast í gang
GB skrifar
