Erlent

Merkel hrósar grísku stjórninni

Margir Grikkir eru Þjóðverjum afar reiðir og sýndu það í gær.
nordicphotos/AFP
Margir Grikkir eru Þjóðverjum afar reiðir og sýndu það í gær. nordicphotos/AFP
„Ég vona og óska þess að Grikkland verði áfram með aðild að evrusvæðinu,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari í gær, þegar hún kom í stutta heimsókn til Grikklands.

Hún sagðist vinna hörðum höndum að því, ásamt Grikklandi, að svo megi verða og hrósaði grísku stjórninni fyrir þann árangur sem náðst hefur við að koma böndum á ríkisfjármálin.

„Mikið hefur áunnist. Það eru framfarir á hverjum degi,“ sagði hún eftir að hafa átt fund með Antonis Samaras forsætisráðherra í Aþenu.

Almenningur í Grikklandi er Þjóðverjum reiður fyrir það hve þeir hafa sett Grikkjum ströng skilyrði í ríkisfjármálum.

Aðhaldsaðgerðir hafa bitnað illa á almenningi, en gríska stjórnin bíður nú eftir því hvort Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telji aðgerðirnar hafa skilað nægilega góðum árangri til þess að óhætt sé að veita Grikkjum frekari fjárhagsaðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×