Lífið

Lyfti fjórum sinnum fyrir miða

Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir kann vel við sig í bekkpressunni.	fréttablaðið/daníel
Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir kann vel við sig í bekkpressunni. fréttablaðið/daníel
Um þrjú hundruð manns lyftu eitt hundrað kílóum í bekkpressu fyrir forsýningu hasarmyndarinnar The Expendables 2 á dögunum. Einn miði var í boði fyrir tvær lyftur.

Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir, íþróttafræðingur, heilsunuddari og vaxtarræktarkona, vakti mikla athygli með því að lyfta þyngdinni fjórum sinnum í röð. „Ég fékk tvo miða og bauð karlinum, þannig að hann þurfti ekki að taka þetta,“ segir Ragnhildur Gyða og hlær. Aðspurð segist hún ekki hafa átt í sérstökum erfiðleikum með lyfturnar, enda hefur hún mest lyft þyngdinni sex sinnum í röð.

Fyrir tveimur árum var haldin sams konar lyftingakeppni fyrir fyrri myndina, The Expendables, en Ragnhildur Gyða var þá fjarri góðu gamni. „Þá var ég ekki nógu sterk til að ná þessu. Þannig að þetta var búið að vera markmið síðan fyrri myndin kom út að vera búin að ná hundrað kílóum í bekk fyrir næstu mynd svo maður gæti nælt sér í miða.“

Hjalti „Úrsus“ Árnason stóð fyrir uppákomunni fyrir utan Laugarásbíó, eins Fréttablaðið hefur áður greint frá. Hann átti ekki von á þessum mikla krafti í Ragnhildi. „Hún var nokkuð hrikaleg. Ég hef aldrei séð konu gera þetta fyrr á Íslandi, ekki svona af götunni. Þetta kom verulega á óvart og hún átti ekki í neinum vanda með þetta.“

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.