Lífið

Kynt undir ástareldinum

Par í aftursætinu að kúra.
Par í aftursætinu að kúra.
Sæl og takk fyrir þína frábæru pistla í Fréttablaðinu. Ég er í svolítið skrítinni aðstöðu og langaði að leita ráða hjá þér.



Ég er búin að vera í sambúð í tólf ár og það gengur vel fyrir utan eitt atriði; mér finnst maðurinn minn sætur, skemmtilegur og flottur og hef lítinn áhuga á öðrum mönnum, en mér finnst hann ekki lengur „sexí" og finn ekki fyrir löngun til að sofa hjá honum. Hann vinnur mikið og hreyfir sig lítið og það er líklega ástæðan. Hvað ráðleggur þú mér í þessari aðstöðu?



Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir hólið. Það er engin lygi að sambönd eru stöðug vinna en þó það sé vinna þarf hún ekki að vera leiðinleg. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á hamingju innan sambands og á kynlífið.

Ég ætla að fá að draga þá ályktun að ef maðurinn vinnur mikið þá hafi hann minni tíma til að sinna sér og sambandinu. Samkvæmt rannsóknum hafa gæði sambands mikil áhrif á kynlöngun kvenna svo ef hann gefur sér ekki tíma til að sinna sambandinu þá er ekki ósennilegt að þú sért ekki í stuði.

Það þarf að nostra við rómantíkina svo erótíkin geti dafnað. Þú minnist samt ekki á það hvort hann langi til að sofa hjá þér? Stundum festast sambönd í því að annar aðili eigi alltaf frumkvæði að kynlífi og þegar viðkomandi hættir því þá gerist ekki neitt.



Ég velti því einnig fyrir mér hvort hann hafi bætt á sig og er líkamlega og andlega útkeyrður eftir mikla vinnu. Líkamsímynd getur haft áhrif á kynlöngun beggja og því er spurning hvort hann þurfi að minnka við sig vinnu til þess að geta fengið útrás fyrir uppsafnaðri streitu og sinnt sér, og þér, betur.



Kynlöngun og aðlöðun geta verið eins og rússíbani sem fer upp og niður og stundum ertu í stuði og stundum ekki. Oftar en ekki spila margvíslegir þættir inn í, líkt og þreyta, streita, tími og ánægja innan sambands. Við getum ekki breytt öðru fólki en við getum breytt okkur sjálfum.

Þú ættir því kannski að spyrja sjálfa þig að því hvort þér finnist þú vera sexí og hvort þig langi til að stunda kynlíf. Prófaðu að brjóta upp hversdaginn og fara á stefnumót með makanum, helst í nýju umhverfi, og athugaðu hvort þið getið talað saman og kynt undir ástareldinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.