Lífið

Starfar við gerð Simpsonsþáttana

Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson landaði tímabundnu starfi sem ráðgjafi hjá teiknimyndaseríunni frægu, The Simpsons. Mynd/Sangjinjung
Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson landaði tímabundnu starfi sem ráðgjafi hjá teiknimyndaseríunni frægu, The Simpsons. Mynd/Sangjinjung
„Ég hef alltaf verið aðdáandi Simpsons-fjölskyldunnar og horfði mikið á þáttinn sem unglingur en ég var 12 ára þegar hann fór fyrst í loftið,“ segir framleiðandinn Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson sem hefur verið ráðinn ráðgjafi hjá teiknimyndaseríunni frægu The Simpsons.

Ragnhildur hefur verið búsett í Los Angeles síðan árið 2010 þar sem hún hefur hoppað á milli ýmissa verkefna innan kvikmyndageirans. Starf hennar hjá teiknimyndaseríunni frægu er tímabundið en þar er hún eins konar rágjafi. „Ég má ekki segja frá verkefninu í augnablikinu vegna samninga. Ég get hins vegar sagt að ég er að vinna með flestöllum sem koma að þættinum, framleiðendum og leikurunum,“ segir Ragnhildur, eða Ragga eins og hún er kölluð, en aðstandendur Simpsons-þáttanna fengu ábendingu um Röggu. „Þeir höfðu samband við mig eftir ábendingu. Ég mætti í viðtal hjá framleiðendum sem gekk bara vel þannig að daginn eftir var ég mætt til vinnu upp í Fox Studios.“

Ragga fullyrðir að það sé gaman að fá innsýn í vinnuna á bak við teiknimyndaseríuna frægu sem er einn langlífasti sjónvarpsþáttur Bandaríkjanna, en fyrsti þátturinn um Simpsons-fjölskylduna fór í loftið árið 1989. „Það er magnað að sjá hversu mikið batterí þættirnir eru sem og vörumerkið sjálft. Það er mikil fagmennska hérna, allir mjög almennilegir og andrúmsloftið þægilegt.“

Ragga kláraði master í framleiðslu ytra síðastliðið vor en henni líkar búsetan í borg englanna vel. „Maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér hérna en það er voðalega gaman og ég er afar þakklát þegar ég fæ svona símtöl eins og frá Simpsons. Gott að hafa góða samstarfsaðila hérna.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.