Lífið

Reynslubolti formaður dómnefndar á RIFF

Geoffrey Gilmore, stjórnandi Tribeca-kvikmyndahátíðarinnar, verður formaður dómnefndar á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík.
Nordicphotos/getty
Geoffrey Gilmore, stjórnandi Tribeca-kvikmyndahátíðarinnar, verður formaður dómnefndar á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Nordicphotos/getty
„Við erum í skýjunum að fá svona reynslubolta til liðs við okkur í ár,“ segir Hrönn Marínósdóttir hjá Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, en formaður dómnefndar á hátíðinni í ár verður Geoffrey Gilmore, stjórnandi Tribeca-hátíðarinnar.

Gilmore er virt nafn innan kvikmyndaiðnaðarins en hann stjórnaði Sundance-hátíðinni í 19 ár áður en hann hóf störf hjá Tribeca fyrir þremur árum síðan. Sundance er ein stærsta óháða kvikmyndahátíðin í Bandaríkjunum og segir Hrönn það mikils virði að fá að kynna Gilmore fyrir því sem er gerast kvikmyndamenningu hér á landi. Hann er einnig kennari við kvikmyndadeild UCLA-háskólans í Los Angeles og hefur verið í dómnefnd á kvikmyndahátíðum um allan heim.

„Það verður mjög gaman að taka á móti honum og kynna hann fyrir landi og þjóð. Þetta snýst allt um að búa til tengslanet fyrir áframhaldandi samstarf og er mikið tækifæri fyrir þá sem að hátíðinni koma,“ segir Hrönn og fullyrðir að Gilmore hafi ekki tekið langan tíma til umhugsunar eftir að RIFF hafði samband. „Hann stökk á tækifærið og er mjög spenntur að koma.“

Í ár eru það 12 myndir sem keppast um aðalverðlaun hátíðarinnar, gullna lundann, en RIFF fer fram dagana 27. september til 7. október næstkomandi. Þetta er í níunda sinn sem hátíðin fer fram en ásamt Gilmore verða tveir aðrir aðilar í dómnefnd sem ekki er búið að staðfesta enn þá en undirbúningur fyrir RIFF er í fullum gangi. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.