Lífið

Barnastjarna í vanda

Því er haldið fram að barnastjarnan Macaulay Culkin glími við heróínfíkn. nordicphotos/getty
Því er haldið fram að barnastjarnan Macaulay Culkin glími við heróínfíkn. nordicphotos/getty
Leikarinn Macaulay Culkin er sagður glíma við eiturlyfjavanda sem gæti dregið hann til dauða. Tímaritið National Enquirer heldur þessu fram á forsíðu sinni og segir Culkin hafa ánetjast heróíni og eyða allt að sjö hundruð þúsund krónum á mánuði í heróín og önnur eiturlyf.

Talsmaður leikarans þvertekur fyrir að nokkuð sannleikskorn sé að finna í frétt tímaritsins og hótaði að kæra það í kjölfarið. "Fréttin í National Enquirer um að Macaulay Culkin sé háður heróíni og öðrum eiturlyfjum er án nokkurra staðreynda og er ekkert annað en kjánalegur skáldskapur. Fréttin er móðgandi fyrir skjólstæðing minn," sagði Michelle Bega, talskona Culkin.

National Enquirer heldur því fram að það hafi áreiðanlegar heimildir fyrir því að Culkin noti reglulega heróín og verkjalyfið oxycodone og að íbúð hans í Manhattan líkist heldur dópbæli en heimili. Heimildarmaður tímaritsins segir Culkin hafa glímt við fíkn sína í á annað ár og að hann umgangist nú að mestu aðra fíkla. Jennifer Adamson, hálfsystir Culkin, lést eftir of stóran skammt eiturlyfja árið 2000 og vinkona leikarans lést einnig af of stórum skammti í vor. "Fjölskylda Elijah Rosello staðfesti við The Enquirer að hún hefði neytt eiturlyfja með Macaulay áður en hún lést í mars," stóð ritað í tímaritinu um málið. Ritstjóri tímaritsins stóð við frétt sína og hvatti Culkin um leið til þess að sækja sér aðstoð.

"Ætli talsmenn Macaulay að halda áfram að neita þeim staðreyndum er koma fram í fréttinni bjóðum við honum að fara í blóðprufu svo hægt sé að taka af allan vafa," skrifaði ritstjórinn.

Culkin er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Kevin McCallister í kvikmyndunum Home Alone og Home Alone 2: Lost in New York. Hann tilkynnti fjórtán ára gamall að hann væri hættur í leiklist en lék þó aðalhlutverkið í kvikmyndinni Party Monster árið 2003. Hann var í sambandi með leikkonunni Milu Kunis í níu ár eða allt til ársins 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.