Lífið

Sýnir ljósmyndir í Sjanghæ

Egill Bjarki hefur starfað sem ljósmyndari í Sjanghæ frá byrjun febrúar. Hann opnaði fyrstu sýninguna sína og gaf út bók 21. júlí síðastliðinn.
Egill Bjarki hefur starfað sem ljósmyndari í Sjanghæ frá byrjun febrúar. Hann opnaði fyrstu sýninguna sína og gaf út bók 21. júlí síðastliðinn.
"Ég gerði samning við þá og þetta er fyrsta sýningin af framtíðarsamstarfi," segir ljósmyndarinn Egill Bjarki Jónsson sem opnaði sína fyrstu sýningu og gaf út bók í Sjanghæ laugardaginn 21. júlí. Sýningin fangar ljósmyndun hins víðförla Egils en myndirnar eru frá Íslandi, Noregi, Danmörku og Sjanghæ.

Egill hefur starfað sjálfstætt í stórborginni frá byrjun febrúar og er sýningin upphaf að samstarfi hans við sýningarstjórann Julian Ramirez Rentero í galleríinu Moproo í M50 listamannahverfinu. "Hann mun senda myndir frá mér í ljósmyndakeppni fyrir listamenn sem eru með samning við gallerí."

Nýútgefna bókin er í raun kassi með ljósmyndaseríum Egils af blómum og ruðningsköppum. "Hún hefur aðeins meira notagildi en bók því fólk getur tekið mynd og sett í ramma," segir hann. "Annar sýningastjóri vill núna fá mig til að halda sýningu í stærra galleríi," segir hann um viðtökur sýningarinnar. Egill útskrifaðist úr ljósmyndunarnámi Medieskolerne í Viborg vorið 2010.

"Ég ætlaði að reyna fyrir mér í Danmörku en þar var ekki rétta andrúmsloftið. Við höfðum verið í Kína árið 2008 og ákváðum að taka annað Kína á þetta," segir Egill um ákvörðun hans og kærustunnar. "Þetta er mjög stór borg og mikið af verkefnum svo ég þrífst mjög vel hérna."

Aðalsvið Egils eru portrettmyndir en hann hyggst færa sig yfir í auglýsingaljósmyndun og fagnar því að geta sérhæft sig innan auglýsingageirans í Sjanghæ.

Stórborgin Shanghai.
Þessa stundina er hann að vinna ýmis sjálfstæð verkefni, þar á meðal fyrir þýska viðskiptablaðið Wirtschaftswoche og viðskiptavinablað Lufthansa.

"Núna er ég samt að byrja að einbeita mér meira að persónulegum verkefnum," segir hann.

Sýningin stendur til 25. ágúst. -hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.