Lífið

Kjarni innsetningar fangaður í bókverki

Elín Hansdóttir.
Elín Hansdóttir. Mynd/Daníel
Útgáfu bókverksins Path – Journey to the Centre var fagnað í Bókaútgáfunni Crymogeu í vikunni, en bókin er samstarfsverkefni myndlistarkonunnar Elínar Hansdóttur og bandaríska rithöfundarins Rebeccu Solnit.

Upphaf samstarfsins má rekja til þess þegar Rebecca var stödd hér á landi árið 2009 og sá og heillaðist af samnefndu verki Elínar í Listasafni Íslands. „Við Rebecca hittumst fyrir tilviljun hér á Íslandi það ár. Hún lýsti yfir áhuga á að skrifa um sína reynslu af verkinu og við ákváðum að gefa út lítið bókverk í kjölfarið," segir Elín, sem stödd er hér á landi til að fagna útgáfu bókarinnar, en hún hefur verið búsett í Berlín í nær áratug.

Bókin samanstendur af ljósmyndum af verki Elínar og texta eftir Rebeccu. Hún er á ensku, enda ekki síður ætluð alþjóðlegum markaði heldur en þeim íslenska, en texti bókarinnar er jafnframt stutt útgáfa af broti úr næstu bók Rebeccu, sem kemur út á næsta ári.

Elín segir það hafa verið áhugaverða reynslu fyrir hana að horfa á verk sín út frá nýju sjónarhorni í miðli sem hún hefur ekki áður unnið með. „Þetta var ómetanlegt, því ég hef mikinn áhuga á því að vita hvernig fólk upplifir það sem ég geri. Það er svo sjaldan sem maður fær að heyra reynslu fólks. Ég geri myndlist sem er hverful, stórar innsetningar sem eru uppi í nokkrar vikur og svo teknar niður. Með þessu bókverki gerðum við tilraun til þess að fanga kjarna verksins í öðrum miðli." -hhs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.