Lífið

Hrollvekja í norrænni keppni

Erlingur kynnir handrit að hrollvekju í fullri lengd í Nordic Talents Pitch ásamt Baldvin, samstarfsfélaga sínum til margra ára.
Erlingur kynnir handrit að hrollvekju í fullri lengd í Nordic Talents Pitch ásamt Baldvin, samstarfsfélaga sínum til margra ára. Fréttablaðið/Vilhelm
„Okkur fannst vanta íslenska hrollvekju og ákváðum að gera þessa mjög íslenska með því að sækja í þjóðsögur og náttúru," segir Erlingur Óttar Thoroddsen en handrit hans að hrollvekju í fullri lengd tekur þátt í Nordic Talents Pitch keppninni í Kaupmannahöfn dagana 5. til 7. september.

Baldvin Kári Sveinbjörnsson er hugmyndasmiður handritsins ásamt Erlingi og framleiðir kvikmyndina. Hrollvekjan hefur fengið tvo handritsstyrki frá Kvikmyndasjóði Íslands og er lagt upp með að hefja tökur næsta sumar. „Að komast inn í keppnina er gríðarlegur heiður fyrir okkur og mun vonandi hjálpa myndinni enn meira," segir hann.

Keppnin er haldin árlega af Nordisk Film & TV Fund fyrir nýútskrifaða norræna kvikmyndaskólanema þar sem þeir kynna handrit sín fyrir dómnefnd kvikmyndagerðarmanna og hitta marga lykilmenn kvikmyndabransans á Norðurlöndunum. Leikstjórinn Ragnar Bragason situr í dómnefnd og segir Erlingur það vera ákveðinn létti að hafa dómara sem skilur íslenskt þema verksins.

Handritið ber titilinn Hulin og segir frá manni sem heldur upp á hálendi í leit að týndri systur sinni. „Þar hittir hann fyrir hóp af fólki í dularfullum erindagjörðum. Á endanum uppgötva þau að þau eru þarna af svipaðri ástæðu sem tengist huldukonu sem þjóðsögur segja að búi á svæðinu," segir Erlingur. Stefna þeir á að taka upp á Laugaveginum, gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Þeir hafa báðir stundað meistaranám í leikstjórn við Columbia-háskóla í New York en Baldvin útskrifaðist í vor og Erlingur stefnir á að klára næsta vor. Þeir eiga langt samstarf að baki. „Við gerðum fyrstu stuttmyndina okkar saman í Garðaskóla þegar við vorum 15 ára og enduðum báðir í Columbia. Þetta er sem sagt náttúrulegt framhald af okkar samstarfi," segir hann. -hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.