Lífið

Miðalausar eftir níu tíma ferðalag

Andrea Ösp og Unnur dóu ekki ráðalausar þegar þær uppgötvuðu eftir níu tíma keyrslu til Borgarfjarðar eystri að miðana vantaði heldur fengu þá senda með flugvél til Egilsstaða.
Andrea Ösp og Unnur dóu ekki ráðalausar þegar þær uppgötvuðu eftir níu tíma keyrslu til Borgarfjarðar eystri að miðana vantaði heldur fengu þá senda með flugvél til Egilsstaða.
„Ég mundi eftir hamborgarakryddinu en ekki miðunum," segir körfuboltakonan Andrea Ösp Pálsdóttir hlæjandi en hún lagði upp í níu tíma svaðilför ásamt vinkonu sinni Unni Hauksdóttur í fyrradag til Borgarfjarðar eystri á tónlistarhátíðina Bræðsluna. Þegar komið var á áfangastað klukkan tvö aðfaranótt föstudags uppgötvuðu þær sér til mikillar skelfingar að miðana vantaði.

„Ekki nóg með það heldur gleymdum við að taka bensín á Egilsstöðum. Við pissuðum einhvers staðar þarna, keyrðum svo fram hjá og vorum á seinustu lítrunum í hlutlausum niður brekkuna hingað," segir hún um hasar ferðarinnar. „Síðan var svartaþoka á heiðinni og við rétt náðum að komast. Vissum ekkert hvert við vorum að fara."

En hvernig ætla stöllurnar að bjarga málunum? „Ég bað bróður minn um að brjótast inn heima hjá mér, ná í miðana og senda þá með flugvél til Egilsstaða. Maður gerir allt fyrir Bræðsluna," segir hún yfir sig spennt enda fyrsta skipti vinkvennanna á Bræðslunni. Þær vona innilega að miðarnir skili sér í tæka tíð svo þær nái tónleikum hátíðarinnar en Kiriyama Family og Tilbury spiluðu meðal annarra í gær og Mugison, Fjallabræður og fleiri halda uppi stuðinu í dag.

Áætluð lending miðanna var klukkan fimm í gær og stefndu hressu vinkonurnar á Egilsstaði. „Maður tekur bara einn sundsprett, nær í miðana og svo er fjandinn laus," segir Andrea.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.