Lífið

Bíður svars frá konunni með schaefer-hundinn

Oddbjørn leggur mikið á sig til að finna draumakonuna sína, sem hann hefur rekist á í tvígang hérlendis en aldrei náð að tala við.
Oddbjørn leggur mikið á sig til að finna draumakonuna sína, sem hann hefur rekist á í tvígang hérlendis en aldrei náð að tala við. Mynd/einkaeign
„Það sendi mér kona skilaboð á Facebook í gær og sagðist vera vinkona þeirrar sem ég væri að leita að. Hún sendi mér upplýsingar um hana og ég er búin að senda henni póst," segir Oddbjørn Skjerdal, sem leitar íslenskrar draumadísar sem hann hefur rekist á tvívegis í heimsóknum sínum hingað til lands.

Oddbjørn brá á það ráð í örvæntingarfullri leit sinni að senda inn auglýsingu í smáauglýsingar Morgunblaðsins og lýsa eftir henni. Auglýsingin hefur farið sem eldur í sinu um netheima og er þegar komin með vel yfir eitt þúsund meðmæli á Facebook. „Vá, mér datt ekki í hug að svona margir myndu lesa þetta. Þetta hræðir mig pínu en ég hef aldrei gert neitt svipað þessu áður," segir Oddbjørn hissa þegar hann fréttir af vinsældum auglýsingarinnar.

Forsaga málsins er sú að hann kom hingað til lands árið 2010 og rakst þá á ljóshærða konu, um 170 sentimetra háa, með fallegt bros og schaefer-hund við Olís í Hvalfirðinum. „Það gerðist eitthvað sérstakt innra með mér strax og ég sá þessa konu," segir Oddbjørn sem hélt dagbók á meðan á dvöl hans hér stóð og gat því nefnt stund og stað hittingsins nákvæmlega. Hann guggnaði þó á að tala við hana og hélt leiðar sinnar, sá svo eftir því og sneri við en þá var hún farin.

Það var svo núna í júní að hann var staddur hérlendis aftur í heimsókn og sá þá konu standa fyrir framan Kaffismiðjuna. „Ég fann þessa tilfinningu aftur um leið og ég sá hana. Það var samt ekki fyrr en ég var kominn heim um kvöldið að ég áttaði mig á því hvaða tilfinning þetta var og að þetta hefði verið sama konan og fyrir tveimur árum, með sama hundinn," segir Oddbjørn rómantískur í bragði.

Hann fann strax að hann yrði að finna þessa konu sem vakti slíkar tilfinningar innra með honum svo hann hafði samband við íslenskan nágranna sinn og spurði hann ráða. „Hann bauðst til að þýða fyrir mig auglýsingu yfir á íslensku og senda inn í blaðið," segir Oddbjørn.

Hann var búinn að vera í vinnunni allan daginn þegar blaðamaður náði af honum tali og því ekki búinn að sjá hvort daman, sem hann sendi póst í gær, hefði svarað. „Ég er mjög spenntur að koma heim og sjá hvort mín bíði skilaboð," segir hann.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.