Erlent

Atburðir í Rúmeníu vekja áhyggjur ESB

Forsætisráðherra Rúmeníu hefur staðið í ströngu síðan hann tók við í maí og er sakaður um tilraunir til valdaráns.
Forsætisráðherra Rúmeníu hefur staðið í ströngu síðan hann tók við í maí og er sakaður um tilraunir til valdaráns. nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gagnrýnir harðlega Rúmeníu og Búlgaríu fyrir að standast ekki kröfur sem gerðar eru til aðildarríkjanna. Búlgaría ræður ekkert við skipulagða glæpi og Rúmeníustjórn grefur undan lýðræðinu.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir atburðina í Rúmeníu síðustu vikur vekja alvarlegar efasemdir um að Victor Ponta forsætisráðherra og stjórn hans beri næga virðingu fyrir lýðræði og reglum réttarríkisins.

„Stjórnmálamenn mega ekki reyna að ógna dómurum áður en dómur er kveðinn upp, né ráðast á dómara þegar þeir hafa tekið ákvarðanir sem falla ekki í kramið,“ sagði Barroso í gær þegar hann kynnti áfangaskýrslur um umbætur, sem bæði Rúmenía og Búlgaría lofuðu að hrinda í framkvæmd þegar þessi tvö ríki fengu aðild að ESB fyrir fimm árum.

Bæði löndin eru harðlega gagnrýnd fyrir að hægt hafi miðað.

Í Rúmeníu hefur Ponta forsætisráðherra, sem er sósíaldemókrati, staðið í ströngu síðan hann tók við embættinu í maí, þegar fyrri ríkisstjórn missti meirihluta sinn á þingi. Gagnrýnendur segja hann hafa gripið til vafasamra aðgerða í því skyni að hrifsa til sín öll völd í landinu.

Ponta hefur meðal annars reynt að víkja Traian Basescu forseta úr embætti. Hann hefur hunsað niðurstöðu stjórnlagadómstóls og reynt að breyta starfsreglum dómstólsins. Hann hefur vikið umboðsmanni þjóðþingsins úr embætti sínu.

Í lok júlí verður þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem þjóðin verður spurð hvort hún samþykki brottvikningu forsetans.

Ponta lét hins vegar undan þrýstingi frá ESB og féllst í gær á að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki gild nema kosningaþátttakan nái meirihluta kosningabærra manna.

Í áfangaskýrslum ESB eru stjórnvöld í bæði Rúmeníu og Búlgaríu gagnrýnd fyrir að hafa ekki náð tilætluðum árangri við uppbyggingu í dómsmálum og hafa heldur ekki náð að draga nægilega úr landlægri spillingu, auk þess sem Búlgaría er gagnrýnd fyrir að ráða lítið sem ekkert við skipulagða glæpastarfsemi.

Við inngöngu landanna í ESB árið 2007 var samþykkt að framkvæmdastjórn ESB fylgdist grannt með árangri landanna á þessum sviðum, og aðstoða þau eftir megni þangað til þau stæðust þær kröfur sem gerðar eru til aðildarríkja ESB.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×