Innlent

Glerbotnsbátur sigli frá Rauðukusunesi

Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson
Þingvallanefnd hefur heimilað útgerð rafknúins útsýnisbáts með gegnsæjum botni til siglinga á Þingvallavatni. Þjóðgarðsvörður mælir með því að bryggja fyrir glerbytnuna verði í Rauðukusunesi en skipulagsmálin eru óleystur vandi.

„Okkur finnst við ekki fá nógan stuðning frá Þingvallanefnd með þessu leyfi sem hún gaf,“ segir Gissur Baldursson skipstjóri, annar tveggja sem samþykkt var að heimila að gera út útsýnisbát með glerbotni frá þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Gissur og Snæbjörn Ólafsson hafa um nokkurra missera skeið sóst eftir leyfi fyrir að gera út rafknúna glerbytnu fyrir fimmtán til tuttugu farþega á Þingvallavatni. Þeir hafa þrýst á um svör áður en lokahönnun og smíði bátsins hefst. Í desember síðastliðnum lagði Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður ásamt fræðslufulltrúa þjóðgarðsins til að Þingvallanefnd samþykkti málið. Nefndin ákvað þá að fela Ólafi að semja við Gissur og Snæbjörn um verkefnið, meðal annars um aðstöðugjald vegna kostnaðar fyrir þjóðgarðinn. Ábúandinn á Kárastöðum mun einnig hafa gefið sitt samþykki.

„Við erum búnir að hanna bátinn í grófum dráttum og rafbúnaðinn í hann en það hefur lítið annað gerst frá því Þingvallanefnd ákvað að samningurinn við okkur yrði gerður,“ segir Gissur.

Í áðurnefndu minnisblaði þjóðgarðsvarðar og fræðslufulltrúans segir að þeir hafi með Gissuri og Snæbirni skoðað þrjú svæði undir starfsemina. Mældu þeir með því að Nestá á Rauðukusunesi í Kárastaðalandi yrði skoðuð nánar sem aðstaða fyrir rafmagnsbátinn. Þar í kring er talsverð sumarhúsabyggð.

„Þetta mál er í vinnslu bæði hjá þeim og okkur. Við höfum verið að horfa á Kárastaðalandið en það er ekki kominn neinn botn í það,“ segir Ólafur og bendir á að gæta þurfi að mjög mörgum atriðum.

„Ef það þarf að reisa þarna flotbryggju, bílastæði, salerni og önnur mannvirki og laga vegi þá þarf það náttúrlega að fara fyrir byggingarnefnd,“ segir Ólafur og bætir við að eins þurfi Siglingastofnunin að fara yfir öryggismál. „Þetta tekur allt sinn tíma.“

Gissur segir þá Snæbjörn ánægða með Rauðukusunes fyrir bátinn sem verður með glerglugga á kilinum svo farþegar geti horft ofan í djúp Þingvallavatns. Svo virðist hins vegar sem runnar séu tvær grímur á Þingvallanefnd vegna skipulagsmála á svæðinu.

„En við erum ekkert hættir því við erum búnir að leggja allt of mikla vinnu og peninga í að hanna þetta og koma þessu af stað til að leggja árar í bát núna,“ segir Gissur Baldursson. gar@frettabladid.is

„Við erum búnir að hanna bátinn í grófum dráttum og rafbúnaðinn í hann en það hefur lítið annað gerst frá því Þingvallanefnd ákvað að samningurinn við okkur yrði gerður.“

Gissur Baldursson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×