Innlent

Mikil óvissa um orkugetu jarðvarma

Hörður Arnarson segir að mat á orkugetu svæða í nýtingarflokki Rammaáætlunar sé við efri mörk. Af þeim 8,5 terawattstundum sem svæðin séu sögð geta framleitt séu aðeins 2,5 til 3 trygg.
Hörður Arnarson segir að mat á orkugetu svæða í nýtingarflokki Rammaáætlunar sé við efri mörk. Af þeim 8,5 terawattstundum sem svæðin séu sögð geta framleitt séu aðeins 2,5 til 3 trygg. fréttablaðið/stefán
Forstjóri Landsvirkjunar segir aðeins lítinn hluta þeirrar orku sem gert er ráð fyrir í nýtingarflokki Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða vera tryggan. Hann undrast að allar vatnsaflsvirkjanir séu settar í bið- eða verndarflokk, utan tveggja lítilla virkjana. Orkuframboð á Suðurlandi sé minnkað til muna.

Þingsályktunartillaga um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða kom fram um helgina. Áætlunin er samvinnuverkefni þeirra Oddnýjar G. Harðardótturiðnaðarráðherra og Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Hún byggir á vinnu verkefnisstjórnar sem lagði fram sína skýrslu í haust.

Helstu breytingarnar frá þeirri skýrslu er að þrír virkjanakostir í neðrihluta Þjórsár eru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, sem og tveir virkjanakostir á hálendinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir Þjórsárvirkjanirnar hafa komið á óvart.

„Við töldum allar forsendur til að fara í þær virkjanir og það var í samræmi við álit verkefnisstjórnar og flokkun ráðherranna fyrir nokkrum mánuðum síðan. Við teljum að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram sem réttlæti breytta flokkun."

Hörður segir laxagengd í ánni hafa verið rannsakaða í 40 ár og af miklum krafti síðustu tíu ár. Allar þær rannsóknir sem nú sé kallað eftir séu til. „Mikið af því sem verið er að benda á hefur verið í skoðun lengi og miklar rannsóknir farið fram akkúrat á þeim sviðum þar sem menn hafa haldið því fram að þær vanti. Það vantar einfaldlega yfirsýn yfir rannsóknirnar."

Horfið frá vatnsaflinuAðeins tvær vatnsaflsvirkjanir er að finna í nýtingarflokki og eru þær báðar litlar. Þar er um að ræða Hvalárvirkjun, sem er rúm 30 megawött og Blönduveitu, sem er um 20 megawött.

Hörður segir stefnubreytinguna frá vatnsafli koma á óvart. „Það er dálítið sérstakt að leggja þessa ofuráherslu á jarðvarmann, með þeirri miklu óvissu sem þar er. Það var ekki lagt upp með það, í erindisbréfi verkefnastjórnar eins og við skiljum það, að stefna að því að hætta nýtingu vatnsafls.

Það er mikilvægt að hafa það í huga varðandi Rammaáætlunina að þar er gert ráð fyrir að 8,5 terawattsstundir séu í nýtingarflokki. Það má segja að engar vatnsaflsvirkjanir sé þar að finna, utan Hvalá og Blönduveitu. Um 95 prósent af orkunni koma úr jarðvarma."

Hörður segir að eins og áætlunin líti út nú sé eingöngu um að ræða virkjanir á Norðausturlandi hjá Landsvirkjun: Þeistareyki, Bjarnarflag og Kröflu. Ekkert annað sé í pípunum.

„Það kemur á óvart að engin vatnsaflsvirkjun sé í nýtingarflokki eftir þá mikla vinnu sem búið er að leggja í málið."

Jarðvarminn í óvissuAf þeim 8,5 terawattsstundum sem Rammaáætlun gerir ráð fyrir að nýta, segir Hörður að aðeins 2,5 til 3 séu öruggar. Það sé eðli jarðvarmans hve mikil óvissa ríkir um orkugetuna. Þá séu fjölmörg svæðanna lítt eða ekkert rannsökuð.

„Af þessum svæðum í nýtingarflokki eru svæði sem hefur verið borað í, svo sem á sumum háhitasvæðum á Reykjanesi. Þá eru þarna svæði sem menn eru rétt að byrja að skoða, eins og vestursvæðið á Þeistareykjum. Orkugeta þess liggur ekki fyrir, enda hafa þar aðeins farið fram yfirborðsmælingar."

Hörður segir að slíkar mælingar sýni aðeins fram á að svæðið hafi verið heitt, ekki hvort það sé enn heitt.

„Í öðru lagi geta menn lent í vandræðum með innihald gufunnar, eins og í Kröflu, en það er erfitt að nýta það svæði.

Þar að auki verður að nýta jarðvarmann í skrefum. Þó 8,5 terawattstundir væru heildarmagnið á þessum svæðum verður að fara mjög varlega af stað, til að tryggja sjálfbæra nýtingu. Það er alls ekki þannig að hægt sé að ráðast í þetta á næstu misserum.

Ef menn skoða nýtingarlistann og spyrja hverju Rammaáætlunin breyti sést að það er afskaplega lítið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×