Erlent

Suu Kyi sögð komin á þing

Fögnuður í Búrma Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi eftir að flokkur hennar hafði lýst yfir sigri. Fréttablaðið/AP
Fögnuður í Búrma Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi eftir að flokkur hennar hafði lýst yfir sigri. Fréttablaðið/AP
Staðfesti herforingjastjórnin í Búrma sigur Aung San Suu Kyi í aukaþingkosningum í Kawhmu, þá tekur hún von bráðar sæti á þingi í fyrsta sinn. Flokkur hennar, Lýðræðisfylkingin, fullyrðir að frambjóðendur flokksins hafi unnið sigur í 40 kjördæmum af þeim 45 sem kosið var í. Lýðræðisfylkingin bauð fram í 44 þeirra.

Mikill fögnuður braust út meðal stuðningsmanna flokksins og Suu Kyi víða um land. Yfirlýsing flokksins um sigur í hverju kjördæminu á fætur öðrum var birt á ljósaskilti fyrir utan höfuðstöðvar hans í borginni Rangún. Þúsundir stuðningsmanna flokksins voru saman komnir fyrir utan húsið og tóku strax að hrópa sigri hrósandi: „Við unnum, við unnum!“

Ekki er búist við opinberum niðurstöðum úr atkvæðatalningu fyrr en í dag. Yfirlýsingar Lýðræðisfylkingarinnar eru byggðar á útgönguspám, sem flokkurinn lét gera. Engin óháð samtök hafa getað staðfest þessa niðurstöðu.

Suu Kyi, sem er orðin 66 ára, hefur verið höfð í stofufangelsi meira og minna undanfarna tvo áratugi en var látin laus síðla árs 2010, þegar herforingjastjórnin var tekin til við að slaka á valdataumunum.

Lýðræðisfylkingin vann yfirburðasigur í þingkosningum árið 1990 en herforingjastjórnin neitaði þá að viðurkenna úrslit þeirra kosninga. Síðan herforinginn Thein Sein tók við forsetaembætti í landinu snemma á síðasta ári hafa nokkrar lýðræðisumbætur orðið. Flestum pólitískum föngum hefur verið sleppt úr haldi og ritskoðun á fjölmiðlum hefur að stórum hluta verið aflétt.

Jafnframt hefur einangrun landsins verið rofin. Samskiptin við Vesturlönd hafa batnað og jafnvel Bandaríkin hafa gefið vilyrði um aðstoð, haldi þessi þróun í lýðræðisátt áfram.

Lýðræðisfylkingin hefur á hinn bóginn sakað herforingjastjórnina um að hafa staðið að margs konar kosningasvindli í gær. Tugir kæra höfðu borist til yfirkjörstjórnar landsins. Meðal annars eru þar ásakanir um að kjörseðlar hefðu verið vaxbornir, sem gerði kjósendum erfitt fyrir að merkja við frambjóðendur með þeim afleiðingum að kjörseðlarnir geta verið taldir ógildir.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×