Lífið

Feðgin með sex daga tónlistarhátíð

Feðginin Valgeir og Vigdís Vala fagna hverju tækifæri sem þau fá til að spila saman.
Feðginin Valgeir og Vigdís Vala fagna hverju tækifæri sem þau fá til að spila saman. Fréttablaðið/stefán
"Hún fer sínar eigin leiðir og þarf lítið á leiðbeiningum að halda því þetta liggur svo fallega fyrir henni," segir tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson um 19 ára gamla dóttur sína, Vigdísi Völu Valgeirsdóttur.

Vigdís Vala og faðir hennar spila saman á sex daga tónlistarhátíð í NemaForum við Lækjartorg yfir verslunarmannahelgina. Feðginin komu fyrst fram saman á afmælistónleikum Valgeirs í Hörpu síðasta vetur og hafa þau stigið saman á svið nokkrum sinnum eftir það. "Ég breyttist í ryþma-leikara og bakraddasöngvara á Bræðslunni í Borgarfirði um daginn þar sem hún spilaði tvö af eigin lögum," segir Valgeir. Vigdís Vala er rétt að hefja tónlistarferilinn en áhugi hennar kviknaði út frá leiðindum meðan hún lá rúmföst í lengri tíma vegna veikinda. "Ég var orðin dauðleið á öllum litlu hobbýunum sem ég var búin að finna mér að gera svo ég bað pabba um að koma með rafmagnsbassann. Þaðan var svo stutt í gítarinn og ég fór að glamra og kenndi mér á hann sjálf," segir Vigdís og hlær, en hún semur, syngur og spilar aðeins á gítar. Vigdís Vala stefnir á háskólanám í sálfræði í haust en hyggst þó halda áfram í tónlistinni samhliða náminu. "Ég var að stofna hljómsveitina Líparít ásamt sex öðrum og við erum að semja á fullu núna," segir hún spennt en hljómsveitin spilar meðal annars í Iðnó á Menningarnótt.

Hátíðin í NemaForum hefst í kvöld og verða tónleikar klukkan 20 öll kvöld til og með 6. ágúst. "Við verðum með blandað efni og miðum dagskrána við salinn hverju sinni," segir Valgeir. - trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.