Fótbolti

Balotelli skoraði tvívegis og Ítalir komnir í úrslit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Ítalir eru komnir í úrslit á Evrópumóti karlalandsliða í knattspyrnu en liðið lagði Þjóðverja að velli 2-1 í undanúrslitaleiknum í Varsjá í kvöld. Mario Balotelli skoraði bæði mörk Ítala í fyrri hálfleik en Mesut Özil minnkaði muninn í viðbótartíma úr vítaspyrnu.

Eftir kröftuga byrjun Þjóðverja voru það bláklæddir Ítalir sem komust yfir. Antonio Cassano lék þá á Mats Hummels varnarmann Þjóðverja og sendi fyrir markið. Þar var enginn annar en Mario Balotelli mættur og skallaði boltann af krafti í netið af stuttu færi.

Þjóðverjar, sem höfðu aldrei unnið Ítali í leik á stórmóti, blésu til sóknar en blásturinn var heldur mikið. Eftir hornspyrnu þeirra þýsku gleymdi varnarlína þeirra sér illa. Löng sending Ricardo Montolivo féll fyrir fætur Mario Balotelli á vallarhelmingi Þjóðverja.

Balotelli lék boltanum inn á vítateig Þjóðverja og hamraði boltann efst í nærhornið gjörsamlega óverjandi fyrir Manuel Neuer í marki þeirra þýsku. Þjóðverjar gerðu oft harða atlögu að marki Ítala í fyrri hálfleiknum en Gianluigi Buffon var öryggið uppmálað í markinu.

Þjóðverjar gerðu hvað þeir gátu í síðari hálfleik til þess að minnka muninn en náðu aldrei almennilega að ógna marki Buffon. Næst komst varamaðurinn Marco Reus en aukaspyrna hans var varinn af Buffon í þverslána.

Ítalir fengu kjörin tækifæri til þess að klára leikinn án árangurs og brá í brún þegar Þjóðverjar fengu vítaspyrnu í viðbótartíma. Mesut Özil skoraði af fádæma öryggi úr spyrnunni en markið kom of seint. Ítalir fögnuðu sigri og sæti í úrslitaleiknum gegn Spánverjum á sunnudag.

Ítalir og Spánverjar voru einmitt saman í riðlakeppninni þar sem liðin skildu jöfn 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×