Fótbolti

Casillas getur unnið hundraðasta landsleikinn á móti Portúgal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas.
Iker Casillas. Mynd/AFP
Iker Casillas, markvörður og fyrirliði Spánverja, getur orðið fyrsti knattspyrnumaðurinn til að vinna hundrað landsleiki þegar spænska liðið mætir Portúgal í undanúrslitum Evrópumótsins á morgun.

Casillas er búinn að spila 135 landsleiki frá árinu 2000 og spænska landsliðið er búið að vinna 99. þeirra. Hann bætti met Frakkans Liliam Thuram á dögunum en Thuram tók þátt í 94 sigurleikjum með franska landsliðinu á sínum tíma.

Casillas hefur unnið 20 þessara leikja á stórmótum, 9 í 13 leikjum á EM og 11 í 15 leikjum á HM. Hann getur orðið fyrsti maðurinn til þess að lyfta þremur stórmótabikurum í röð vinni Spánverjar Evrópumótið.

Casillas mætir liðsfélaga sínum hjá Real Madrid, Cristiano Ronaldo, í undanúrslitaleiknum og það má búast við því Ronaldo ætli sér að láta "Saint Iker" hafa fyrir 100. landsliðssigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×