Innlent

Nágrannar á Suðurnesjum ógna hvor öðrum með hnífi og hafnarboltakylfu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Annar nágranninn ógnaði hinum með hníf.
Annar nágranninn ógnaði hinum með hníf. Mynd/ Getty.
Heiftarlegar nágrannaerjur brutust út á Suðurnesjum um helgina. Þar áttust við tveir einstaklingar sem búa sitt á hvorri hæðinni. Íbúi á neðri hæð tilkynnti lögreglu að íbúinn á efri hæðinni væri að henda rusli, sígarettustubbum og hundaskít niður í garðinn sinn. Fyrir helgi hefði hann ógnað sér með hafnarboltakylfu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni sem fékk tilkynningu um málið.

Fáeinum mínútum síðar tilkynnti íbúi efri hæðarinnar lögreglu að íbúi á neðri hæð væri að grýta steinum, mjólkurfernum og matarafgöngum í útidyrahurð og á svalir sínar. Enn barst tilkynning upp úr hádegi í fyrradag og þá tilkynnti íbúi efri hæðar, að sá á neðri hæðinni hefði verið að ota að sér stórum eldhúshnífi sem hann væri búinn að binda á kústskaft. Hnífamaðurinn tjáði lögreglu að búnaðinn ætlaði hann sem vörn gegn hafnarboltakylfunni. Lögregla fjarlægði hnífinn og kústskaftið og sagði mönnunum að þeir ættu að leysa ágreininginn friðsamlega, með eða án aðkomu húsfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×