Innlent

Flytja út lambatyppi í tonnavís

Magnús Hlynur skrifar
Tvö tonn af lambatyppum frá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi eru á leið til Kína en markaðir í Asíu fyrir þessa vöru eru að opnast. Kínverjar djúpsteikja typpin. Framleiðslustjóri SS býður landsmönnum að smakka typpin hafa þeir áhuga og lyst á áður en þau verða flutt úr landi.

Það er alltaf eitthvað sem kemur manni á óvart, nú er það nýjasti útflutningur Sláturfélags Suðurlands á lambatyppum frá sláturhúsinu á Selfossi. Alls verða tvo tonn flutt út til Kína en typpin þykja herramannmatur. Hvert typpi er um 30 til 40 grömm að þyngd og lengd þeirra er sviðu. Allt eru þetta typpi af þeim 50 þúsund lambhrútum, sem var slátrað í haust.

„Þetta er í raun og veru bara getnaðarlimir af íslenskum hrútlömbum sem slátrað er á haustin," segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS, og segir að í heild sé um að ræða eitt og hálft til tvö tonn af typpum.

Guðmundur segir að Kínverjarnir djúpsteikin typpin áður en þau eru borðuð, þau þyki lostæti þar í landi.

Gætir þú sjálfur borðað svona typpi?

„Ég væri svosem alveg til í að prófa það? Ég er nú ekki mjög spenntur fyrir því. En hvað er þetta öðru vísi en að éta bara súra hrútspunga til dæmis? Þetta er bara matur eins og annað sem kemur af lambinu," segir Guðmundur.

Svo þetta kemur kannski bara á íslenskan markað?

„Ég ætla ekki að lofa því, en ég er alveg til í að gefa mönnum að smakka ef því er að skipta," segir Guðmundur.

Starfsmenn SS hafa ort vísu um typpin sem er svohljóðandi:

Mér finnst eins og forsendur séu að breytast

í fjárrækt um íslenska hvippinn.

Vaskir bændur verða að leitast

við að stækka hrútatyppin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×