Erlent

Fundu elsta þorp frá fornsögulegum tímum í Evrópu

Fornleifafræðingar í Búlgaríu hafa fundið elsta þorp sem vitað er um frá fornsögulegum tímum í Evrópu. Þorpið var umlukið virkisveggja og þar bjuggu um 350 manns.

Þorp þetta, sem liggur nálægt bænum Provadia, var reist á árunum 4.700 til 4.200 fyrir krist eða um 1.500 árum áður en menningarskeið Grikkja hófst. Talið er að umfangsmikil saltvinnsla hafi verið við þorpið og gæti það skýrt stóran gullfjársjóð sem fannst á þessum slóðum fyrir 40 árum síðan. Sá fjársjóður var sá elsti sem fundist hefur í sögunni.

Við uppgröftinn á þorpinu hafa komið í ljós hús sem voru tvær hæðir að stærð, staðir fyrir helgiathafnir, hlið á virkisveggnum og grafreitur.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC er haft eftir fornleifafræðingnum Krum Bachvarov að um mjög spennandi fornleifafund sé að ræða og þá einkum vegna þess hve virkisveggurinn í kringum þorpið sé öflugur og sterklega byggður. Engin dæmi hafi fundist áður um slíka veggi í Evrópu frá þeim tíma sem þorpið var byggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×