Erlent

Lögreglan kölluð til vegna brimbrettakonu

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Það vakti mikla athygli í Íran þegar brimbrettakonan Easkey Britton vippaði sér út í sjóinn og greip nokkrar öldur úti fyrir ströndum landsins á dögunum. Íranir eru ekki vanir því að konur leiki sér á brimbrettum og því kom ekki á óvart þegar einhver hringdi á lögregluna sem mætti í öllu sínu veldi vegna uppátækisins.

Hins írska Easkey Britton er margfaldur meistari í brimbrettaíþróttinni. Hún ákvað að heimsækja Íran til þess að vekja athygli fólks á brimbrettaíþróttinni og ekki síst fá fleiri stúlkur til að prufa sportið.

„Það voru allir rosalega indælir. Meira að segja lögreglan hafði aðallega áhyggjur af því að ég myndi lenda á klettum og meiða mig," segir Easkey.

Hún ákvað að vera í sérhönnuðum blautbúning með áfastri slæðu (e. hijab) meðan hún renndi sér á brimbrettinu til þess að sýna fullkomna virðingu. „Það var líklega það erfiðasta, að vera með slæðuna í þessum hita. Ég er viss um að þetta hefði verið fínt ef ég hefði bara skellt mér í stuttbuxum," segir hún.

Hún ákvað með sjálfri sér að heimsækja Íran, fékk vinkonu sína til að gera heimildarmynd um ferðina og mætti svo bara á staðinn án þess að gera boð á undan sér. „Þetta var bara tilraun til að vera á brimbretti þar sem engin kona hafði 'surfað' áður," sagði hún.

Með uppátækinu vill hún vekja athygli kvenna á íþróttinni. „Brimbrettaíþróttin getur verið svo miklu meira en bara tómstundagaman. Þetta er ágætis tæki til að opna lífið upp fyrir konum og stúlkum og gefa þeim tækifæri," segir hún.

Frá þessu var sagt í blaðinu The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×