Erlent

Obama og Romney berjast hart um Ohio

Bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Mitt Romney forsetaframbjóðandi Repúblikana leggja nú mikla áherslu á kosningabaráttu sína í Ohio.

Ohio er eitt af þeim ríkjum þar sem úrslitin í komandi forsetakosningum munu ráðast. Allar skoðanakannanir sýna að Obama er með öruggt forskot á Romney í ríkinu og mælist munurinn átta til tíu prósentustig.

Þetta er afleit staða fyrir Romney því enginn forsetaframbjóðenda Repúblikana í sögunni hefur unnið forsetakosningarnar án þess að sigra í Ohio. Því hefur Romney heimsótt Ohio tíu sinnum síðan í vor en Obama hefur komið þangað 13 sinnum frá áramótum

Það er einkum gott efnahagsástand í Ohio sem hjálpar Obama en atvinnuleysi í ríkinu er rétt rúmlega 7% eða prósentustigi minna en það mælist á landsvísu. Það sem einkum liggur hér að baki er góður gangur í bandaríska bílaiðnaðinum en um áttunda hvert starf í Ohio tengist þeim iðnaði.

Stuðningsmenn Obama hafa bent á að þegar forsetinn ákvað að bjarga bílaiðnaðinum fyrir þremur árum með opinberu fé hafi Romney verið alfarið á móti þeim aðgerðum og sagði betra að bílaverksmiðjurnar yrðu gjaldþrota.

Þá kom fram í skoðanakönnun blaðsins Washington Post að Obama nýtur nær helmingi meiri stuðnings en Romney meðal kvenna í Ohio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×