Lífið

Grasrótarvettvangur íslenskra kvikmynda

Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri er í dómnefnd Stuttmyndadaga.
Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri er í dómnefnd Stuttmyndadaga. Mynd/Valli
Hinir árlegu Stuttmyndadagar í Reykjavík fara fram í Bíó Paradís dagana 3.-4. september næstkomandi. Stuttmyndadagar hafa verið grasrótarvettvangur íslenskra kvikmynda allt frá 1991. Þar hafa fjölmargir kvikmyndagerðarmenn, sem síðar hafa getið sér gott orð, stigið sín fyrstu spor.

Keppt er um bestu stuttmyndirnar og verða veitt 100, 75 og 50 þúsund krónur fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið. Einnig verða veitt áhorfendaverðlaun og mun Sjónvarpið sýna verðlaunamyndirnar. Þá verður leikstjóra þeirrar myndar sem hlýtur fyrsta sætið boðið á Kvikmyndahátíðina í Cannes að ári þar sem myndin tekur þátt í hinu svokallaða Short Film Corner.

Meðal þeirra þekktu kvikmyndagerðarmanna sem byrjað hafa ferilinn á Stuttmyndadögum má nefna Árna Óla Ásgeirsson, Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, Rúnar Rúnarsson, Ragnar Bragason, Róbert Douglas, Grím Hákonarson, Hafstein Gunnar Sigurðsson, Reyni Lyngdal og Gunnar B. Guðmundsson.

Dómnefnd skipa þau Ísold Uggadóttir kvikmyndaleikstjóri, Örn Marinó Arnarson kvikmyndagerðarmaður og Ingvar Þórðarson kvikmyndaframleiðandi.

Myndir mega ekki fara yfir 15 mínútur að lengd og verða Íslendingar að vera í lykilstörfum og/eða hlutverkum í þeim. Frestur til að skila inn myndum rennur út þann 10. ágúst. Umsjón með Stuttmyndadögum 2012 er í höndum Bíó Paradísar en nánari upplýsingar er að finna á stuttmyndadagar.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.