Erlent

Sprengjum rigndi í Aleppo í nótt

Frá Aleppo í Sýrlandi
Frá Aleppo í Sýrlandi mynd/afp
Sprengjum stjórnarhersins í Sýrlandi hefur ringt yfir borgina Aleppo í nótt og í morgun. Fjöldi uppreisnarmanna hefur hörfað úr borginni en þeir sem eftir eru búa sig undir stórbardaga.

Fréttamaður Reuters á svæðinu segist hafa orðið vitni að hörðum átökum þar sem sprengjum var varpað í Salaheddine héraði, sem er eins konar hlið inn í Aleppo og eitt helsta vígi uppreisnarmanna.

Um tuttugu þúsund stjórnarhermenn hafa nú umkringt borgina og eru uppreisnarmenn sagðir búast við hinu versta..

Stjórnarhermenn ráðast að borginni með skriðdrekum og stórvopnuðum þyrlum sem ætlað er að brjóta vörnina á bak aftur. Þykir ljóst að þetta stefnir í uppgjör í þessari stærstu borg Sýrlands þar sem barist hefur verið í sautján mánuði.

Sýrlandsstjórn segist hafa brotið sókn uppreisnarmanna á bak aftur í höfuðborginni Damaskus en þar rétt fyrir utan rændu vopnaðir menn fjörutíu og átta írönskum pílagrímum í gærkvöldi. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á mannráninu.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmdi á föstudag stjórn Assads fyrir að beita þungavopnum á almenning og hefur skorað á öryggisráðið að grípa til aðgerða, en Ísland er á meðal þeirra ríkja sem stóðu að ályktuninni, sem hundrað þrjátíu og þrjú ríki samþykktu.

Samkvæmt Mannréttindavakt Sýrlands létust tæplega 4300 í síðasta mánuði hið minnsta þar á meðal 3000 óbreyttir borgarar. Talið er að yfir 20 þúsund hafi fallið frá því að uppreisnin gegn stjórnvöldum í landinu hófst í mars á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×