Lífið

Bjartsýn fyrir seinni hálfleik

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir.
"Það hittist þannig á að ég er á Grænlandi og verð þar á þessum tímamótum,"

segir Siv Friðleifsdóttir alþingismaður sem á fimmtíu ára afmæli á morgun. Það var ekki með ráðum gert að vera að heiman á afmælisdaginn; Siv er í vinnuferð á fundi með stjórn Norræna menningarsjóðsins sem ræðir nú framtíðaráherslur sínar.

Hún sýtir það hins vegar ekki að vera á Grænlandi á afmælinu. "Þetta er frábært, Grænland er mjög skemmtilegt land; ég er búin að kaupa falleg grænlensk kerti sem ég kveiki kannski á í tilefni dagsins á morgun og á sjálfsagt eftir að hafa það huggulegt með starfsfélögum mínum í stjórn menningarsjóðsins."

Siv hefur gaman af því að halda upp á afmælisdaginn sinn og hefur jafnan efnt til veislu á stórafmælum. "Öll hafa þau verið vel heppnuð og eftirminnileg."

En þar sem hún er ekki heima á sjálfan afmælisdaginn í ár hefur hún ekki enn ákveðið hvort hún ætli að blása til fagnaðar. "Ég er með ákveðna dagskrá í huga en hún veltur á veðrinu og ég á eftir að sjá hvernig veðurspáin verður áður en ég segi af eða á með það."

Siv segir það gleðileg tímamót að verða fimmtug. "Þá hefur maður vonandi náð ákveðnum þroska og metur hlutina aðeins öðruvísi en þegar maður var yngri. Maður er búinn að ala upp börnin, koma drengjunum nokkurn veginn á legg, svo nú tekur við nýtt skeið sem ég held að verði mjög skemmtilegt."

Siv hefur setið á Alþingi síðan 1995 í sautján ár. Spurð um framtíðina, hvort hún sé mögulega farin að hugsa um að skipta um starfsvettvang, segir hún ekkert afráðið í þeim efnum. "Hvernig sem fer er ég að minnsta kosti mjög spennt fyrir seinni hálfleiknum sem fer nú í hönd og held ég að þetta eigi eftir að verða góður tími."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.