Fótbolti

Buffon telur að takmarka þurfi fjölda útlendinga í enska boltanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Gianluigi Buffon, markvörður og fyrirliði knattspyrnulandsliðs Ítala, segir að skera þurfi niður fjölda útlendinga í ensku úrvalsdeildinni til að landslið þjóðfarinnar geti náð árangri á stórmóti.

England hefur ekki unnið titil á stórmóti í knattspyrnu síðan á heimavelli á heimsmeistaramótinu árið 1966. Buffon segir að þrá ensku félaganna að hafa bestu leikmenn heimsins í deildinni komi niður á ensku ungviði sem fái ekki tækifæri.

„Deildin á Englandi hefur ekki hagsmuni enska landsliðsins í húfi. Peningarnir sem eru í boltanum gera það að verkum að hægt er að kaupa hvern sem hvaðan sem er í Evópu og í heiminum," sagði Buffon.

England féll úr keppni í átta liða úrslitum gegn Ítalíu eftir vítaspyrnukeppni í leik sem Ítalir höfðu yfirburði í. Buffon segir enska landsliðið þó hafa sína styrkleika.

„Enska liðið er líkamlega sterkara en önnur landslið. En England hefur sjaldnast heppnina með sér. Þeir hafa tapað í vítakeppnum í fimm eða sex síðustu skipti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×