Fótbolti

Löw: Við þurfum á Schweinsteiger að halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, ætlar að nota Bastian Schweinsteiger í undanúrslitaleiknum á móti Ítölum þótt að miðjumaðurinn sé að glíma við ökklameiðsli. Schweinsteiger gat ekki æft í nokkra daga eftir Grikklandsleikinn en var með á æfingu í gær.

„Auðvitað getur hann staðið sig betur en á móti Grikklandi en við þurfum á Bastian að halda í þessum leik," sagði Joachim Löw á blaðamannfundi fyrir leikinn. Þjóðverjar unnu 4-2 sigur á Grikkjum í átta liða úrslitunum

„Hann er leiðtogi í liðinu og hefur þroskast ótrúlega mikið á síðustu þremur árum. Að mínu mati er það mjög mikilvægt fyrir okkar lið að Bastian Schweinsteiger sé með," sagði Löw.

Þjóðverjar hafa unnið fimmtán mótsleiki í röð og þykja líklegir til að vinna sinn fyrsta titil síðan 1996.

„Bastian hefur úthaldið en skorti kannski hreyfanleika á móti Grikkjum. Það breytir þó ekki mikilvægi þess að hann sé inn á vellinum," sagði Löw.

Schweinsteiger hefur lagt upp tvö mörk á EM og voru báðar stoðsendingar hans í leiknum á móti Hollandi. Hann hefur spilað allar 360 mínúturnar í leikjum Þjóðverja í keppninni til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×