Fótbolti

Klinsmann gagnrýnir þýska landsliðið: Yfirspilaðir af Ítölum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klinsmann lyftir hér Evrópubikarnum 1996. Þjóðverjar hafa ekki unnið stórmót síðan þá.
Jürgen Klinsmann lyftir hér Evrópubikarnum 1996. Þjóðverjar hafa ekki unnið stórmót síðan þá. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þjóðverjar voru mættir á EM til að verða Evrópumeistarar en urðu að sætta sig við tap í undanúrslitunum á móti Ítölum í gær. Þýskaland hefur ekki unnið titil á stórmóti síðan að Jürgen Klinsmann var fyrirliði liðsins á EM 1996. Hann var gestur BBC í útsendingunni frá leiknum í gær.

„Þetta er lið framtíðarinnar hjá Þýskalandi en í kvöld sáum við þá hlaupa á vegg," sagði Jürgen Klinsmann á BBC. Mario Balotelli kom Ítalíu í 2-0 og mark Mesut Özil úr vítaspyrnu í uppbótartíma kom alltof seint.

„Þýska liðið átti ekki möguleika á móti Ítalíu því þeir töpuðu öllum einvígunum á miðjunni. Þeir réðu ekki við Andrea Pirlo, Riccardo Montolivo eða Daniele De Rossi," sagði Klinsmann.

„Ítalir yfirspiluðu þýska liðið í fyrri hálfleik og Ítalir voru síðan frábærir í seinni hálfleiknum. Ítalska liðið á allt hrós skilið því þeir voru verðugir sigurvegarar," sagði Klinsmann en hann var þjálfari þýska liðsins áður en Joachim Löw tók við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×