Fótbolti

Umfjöllun: Svíþjóð - Ísland 3-2 | Fjórða tapið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Íslenska fótboltalandsliðið tapaði 3-2 á móti Svíþjóð í vináttulandsleik í Gautaborg í kvöld. Íslenska liðið hefur þar með tapað fjórum fyrstu leikjum sínum undir stjórn Svíans Lars Lagerbäck. Svíarnir voru komnir í 2-0 eftir fjórtán mínútur en Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn á 26. mínútu með flottu skallamarki á 26. mínútu. Hallgrímur Jónasson minnkaði síðan muninn í 3-2 með síðustu spyrnu leiksins eftir að Svíar höfðu komist í 3-1 á 77. mínútu.

Svíarnir tóku öll völd í byrjun leiks og skoruðu tvö mörk á fyrstu fjórtán mínútum leiksins. Zlatan Ibrahimovic skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu með frábæru viðstöðulausu skoti í bláhornið eftir fyrirgjöf frá Sebastian Larsson.

Ola Toivonen bætti við öðru marki á 14. mínútu en Zlatan Ibrahimovic var maðurinn á bak við það. Íslenska liðið tapaði boltanum fyrir framan teiginn og Zlatan fékk boltann. Zlatan lék auðveldlega á Hallgrím og sendi boltann fyrir markið á Ola Toivonen sem á ekki í miklum vandræðum með setja boltann í tómt markið af stuttu færi.

Íslenska liðinu tókst að komast meira í boltann um miðjan hálfleikinn og strákarnir unnu sig ágætlega inn í leikinn.

Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn á 26. mínútu með flottum skalla eftir fyrirgjöf frá Ara Frey Skúlasyni. Kolbeinn losaði sig við varnarmann og skallaði boltann laglega í fjærhornið.

Seinni hálfleikur var mun rólegri en sá fyrri og það var ekki mikið í spilunum þegar Svíar bættu við sínu þriðja marki á 77. mínútu. Christian Wilhelmsson slapp þá í gegn eftir sendingu frá Pontus Wernbloom og skoraði örugglega. Markið kom eftir misheppnað útspark hjá Hannesi.

Hallgrímur Jónasson skoraði síðan með síðustu spyrnu leiksins á þriðju mínútu í uppbótartíma þegar hann skallaði inn hornspyrnu frá Gylfa.

Íslenska liðið þarf að sætta sig við fjórða tapið í röð undir stjórn Lars Lagerbäck en það er ekki alslæmt að tapa 3-2 á móti tveimur sterkum þjóðum útivelli sem eiga það bæði sameiginlegt að vera á leiðinni á EM í næstu viku. Íslenska liðið byrjaði illa og spilaði ekki nærri því eins vel og á móti Frökkum en gerði þó ágætlega í að koma sér inn í leikinn. Þriðja markið var algjör óþarfi en Hallgrímur náði að laga stöðuna í lokin.


Tengdar fréttir

Rúrik: Við þurfum bara að fara ná úrslitum

Rúrik Gíslason og félagar í íslenska landsliðinu þurftu að sætta sig við annað 2-3 tapið í röð á móti Svíþjóð í Gautaborg í kvöld en íslensku strákarnir geta hinsvegar verið sáttir með spilamennskuna á móti Frökkum og Svíum, tveimur sterkum þjóðum sem eru í lokaundirbúningi sínum fyrri úrslitakeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×